151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:40]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og fullvissa þingmanninn um að það ríkir full pólitísk samstaða innan ríkisstjórnarinnar um þetta þverpólitíska mál. Það kemur glögglega fram í því að búið er að tryggja það fjármagn sem þarf til innleiðingarinnar á næsta ári, ellegar væri málið ekki komið hingað inn. Það mun skipta máli að fylgja því eftir á árunum 2022, 2023 og 2024 sem er innleiðingartíminn. Það á eftir að undirbúa það á árinu 2021. Það er eftir næstu alþingiskosningar. Undirbúningstíminn, innleiðingartíminn mun verða næsta kjörtímabil. Ég skal alla vega svara fyrir mig hvað það snertir. Ég tek ekki þátt í því ríkisstjórnarsamstarfi sem hættir þessari vinnu í miðri á eftir næstu kosningar. Og ég treysti því að aðrir stjórnmálaflokkar verði á sömu línu. Ég held að engin ástæða sé til að óttast það vegna þess að allir stjórnmálaflokkar hafa komið að því að forma þessa vinnu. Við erum búin að tryggja allt það fjármagn (Forseti hringir.) sem þarf til verkefnisins fram yfir næstu alþingiskosningar sem er fjárlagaárið 2021.