151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:41]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér skella á okkur hver gleðitíðindin á fætur öðrum. Það er sjaldgæft að maður geti verið heilan dag bara ánægður á þingi. Sérstaklega hef ég glaðst yfir því að nýbúið er að samþykkja fyrir öryrkja 50.000 kr. eingreiðslu og svo kemur barnafrumvarpið, þrjú samtengd mál, sem er hið besta mál og alveg frábært. Ég vildi óska að það hefði bara komið fyrr og væri orðið að lögum og hefði farið að virka í gær. En því miður er það kannski hámark bjartsýninnar.

En ég spyr hæstv. ráðherra vegna þess að nú sé ég, ef við tökum þetta í einhverjum líkingum, að hann er hreinlega að fara að klífa Everest. Til þess að klífa Everest þarf að brúa margar gjár og hafa alla hnúta rétt hnýtta og fullkomið samstarf. Ég hef áhyggjur af því þegar þetta fer af stað hvernig við ætlum að höndla núverandi ástand vegna þess að við vitum að ástandið er gífurlega slæmt hjá mörgum börnum í dag. Við sjáum það að á tilkynningum til Barnaverndar og ofbeldi og annað hefur aukist, sérstaklega í þessum faraldri sem hefur skapað ómögulegt ástand fyrir mörg börn. Þá spyr ég ráðherrann: Hvernig sér hann fyrir sér framkvæmdina þar til þetta verður innleitt og hvernig ætlum við að höndla þær aðstæður sem eru í dag, sem þarf að taka á í dag? Úrræðin virka því miður ekki vegna þess að það eru biðlistar fyrir börn og jafnvel biðlisti til að komast inn á biðlista í sumum tilfellum. Ástandið er mjög slæmt. Ég vona að hann sé með plan B, C og D í því efni að grípa inn í og reyna að setja það upp sem fyrst.