151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:43]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áður en ég kem að kjarnaspurningunni vil ég segja að ég er algerlega sammála hv. þingmanni. Ég vildi óska þess að þessi lög væru orðin að veruleika og þau væru farin að virka. En þegar við erum að tengja alla saman þá tekur það ákveðinn tíma. Það hefur sýnt sig í þessu máli. Um leið og ég er sammála þingmanninum um þetta er ég ósammála honum um það þegar hann segir að hæstv. ráðherra sé að fara að klífa Everest. Hann er ekki að fara að gera það, við erum öll að fara að gera það sem erum búin að vinna að þessu máli, allur þingheimur, öll ráðuneyti. Það er þess vegna sem við erum að ná þessu. Það er ekki vegna þess að það sé einhver einn ráðherra sem hafi haldið á málinu. Það er mikilvægt að hafa það í huga. Hv. þm. Inga Sæland hefur komið jafn mikið að þessu og fulltrúar annarra stjórnmálaflokka.

Hins vegar þegar kemur að ástandinu í dag þá höfum við verið að setja fjármagn til ákveðinna verkefna þar. Við höfum verið að bregðast við með sérstakri vitundarvakningu varðandi barnavernd. Við höfum í samstarfi við Rauða krossinn verið að starfrækja ýmsa símaþjónustu. Við erum að fara að bæta inn í Greiningar- og ráðgjafarstöðina. Þannig að við þurfum að halda þessu gangandi með þeim hætti sem við erum að gera en um leið að hafa auga á því að þessi kerfisbreyting á að einhverju leyti geta breytt þessu. Sú þjónusta sem hv. þingmaður nefnir er samkvæmt þessu nýja frumvarpi þriðja stigs þjónustan. Við erum að tala um að bæta við öðru og fyrsta stiginu og greiningar, sem unnar voru m.a. af Haraldi Líndal, við vinnslu þessa mála og voru kynntar þegar frumvarpið var kynnt, það fylgir að einhverju leyti með kostnaðarmatinu, sýna að það eru allar líkur til þess að takist okkur ætlunarverkið, sem er að ná að koma þessu fyrsta og öðru stigi á, þá muni draga úr á þriðja stigi, en það eru líka úrræði sem eru mjög kostnaðarsöm. Við bregðumst mjög seint við. En það er verkefnið, að bregðast við. Þannig að um leið og við þurfum sannarlega að halda öllu gangandi þá þurfum við að gera allt sem við getum til að flýta fyrir vinnslu þessa máls og það geti farið að virka strax í upphafi árs 2022.