151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:48]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum lagt mikla áherslu á að fjármagn komi inn í þjónustu við viðkvæma hópa, eins og ég rakti áðan. Við höfum verið að setja fjármagn í vitundarvakningu varðandi heimilisofbeldi, varðandi barnavernd. Við höfum veitt 35 milljónir í Barnahús til að bregðast við þar. Svo er það hjálparsíminn 1717. Við erum að setja tæpan milljarð í tómstundastyrki til barna af tekjulágum heimilum á þessu ári og því næsta. Við gátum farið í ýmis úrræði síðasta sumar og í haust sem lúta að fötluðum börnum, eins og sumarbúðir og fleira sem tengjast einmitt þessum erfiðu aðstæðum sem eru í samfélaginu, og það þurfum við svo sannarlega að gera áfram. En ég held hins vegar þegar við skoðum kerfið okkar, þegar við komum að þessu verkefni: Hvernig getum við breytt kerfinu okkar? Þá eigum við að sjálfsögðu að setja fjármagn í það að reyna að létta til, að minnka biðlista o.s.frv., sem við erum að gera, en um leið megum við ekki missa sjónar á því að við verðum að fara í þessa stóru kerfisbreytingu. Annað væru að mínu viti plástralækningar. Þess vegna erum við hérna með þrenn risastór heildarlög sem búið er að vinna að í miklu samráði. Það er vegna þess að við höfum líka trú á því að þegar kerfisbreytingin fer að virka muni losna orka úr læðingi, vegna þess að við þjónustum allt of mikið á þriðja stigi en allt of lítið á fyrsta og öðru stigi og það er gríðarlega dýrt. Ef maður tekur samlíkingu við slökkvilið þá höfum við ekki verið með mikið af reykskynjurum, eldvarnateppum eða slökkvitækjum. Við ætlum í rauninni að fókusera á að bregðast fyrr við til að geta létt á síðar og það hef ég trú á að muni líka leysa úr læðingi orku og fjármagn, bæði hjá ríki og hjá sveitarfélögum.