151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:50]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og gera eins og fleiri þingmenn og óska hæstv. ráðherra til hamingju með að vera kominn fram með þessi mál og um leið hrósa ráðherranum og starfsfólki hans fyrir verkið. Ég var svo lánsamur að fá að vera með í þingmannanefndinni sem aðstoðaði við að vinna þessi mál og geri mér þess vegna fulla grein fyrir því hve mikil vinna liggur þarna að baki.

Það sem mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra um í fyrra andsvari eru þættir er snúa að barnavernd. Nú er óhjákvæmilegt, vil ég meina, í kjölfar setningar þessarar löggjafar, að breytingar verði gerðar á barnaverndarlöggjöf og fram komi frumvarp um barnavernd sem sennilega er skynsamlegast að sé fest í lög og taki gildi um svipað leyti og þessi löggjöf tekur gildi. Þess vegna vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því hvort við megum ekki örugglega búast við því að frumvarp um breytingu á barnaverndarlögum líti dagsins ljós á þessum þingvetri og þá með þeim hætti að Alþingi geti klárað það verk og fái nægan tíma til að vinna þá vinnu samhliða þessu máli, a.m.k. að einhverju leyti.