151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:52]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil líka þakka hv. þingmanni og hrósa honum vegna þess að hann er einn þeirra þingmanna sem hafa átt sæti í umræddri þingmannanefnd, eins og komið var inn á, og hefur unnið þar mjög óeigingjarnt og gott starf. Ég vil jafnframt taka undir með hv. þingmanni og hrósa því starfsfólki sem hefur komið að þessu með einum eða öðrum hætti, hvort sem er starfsfólki ráðuneytisins, sem hefur verið vakið og sofið yfir þessu verkefni, eða starfsfólki sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka, stofnana. Ég nefni félagsmálastjóra og alla þá sem starfa í félagsþjónustunni hringinn í kringum landið sem hafa lagt alveg ómetanlega vinnu í þetta mál og hefur verið ótrúlega gefandi að finna þá samstöðu sem þar hefur verið að myndast.

Að barnaverndarhlutanum og þeim frumvörpum sem vantar: Eðlilega þarf að leggja fram frumvörp sem þessu tengjast og þau munu skipta miklu máli. Þá á ég ekki bara við barnaverndarlögin heldur munum við líka þurfa að leggja fram frumvarp um félagsþjónustu sveitarfélaga, Greiningar- og ráðgjafarstöð, og svo mun þurfa ýmsar breytingar á öðrum lögum sem heyra undir menntamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og eftir atvikum dómsmálaráðuneyti. Þær breytingar munu verða en það verða mestallt breytingar sem tala við þá heildarlöggjöf sem hér er í vinnslu. Þau frumvörp koma núna á vorþingi. Við erum til að mynda með barnaverndarfrumvarpið á lokametrunum í samstarfi við sveitarfélögin, það fer vonandi í samráðsgátt öðrum hvorum megin við jól og getur síðan komið inn í þingið. Þar eru tilgreindar umtalsverðar kerfisbreytingar sem mun þurfa samhliða þessu. Það þarf að breyta barnaverndarkerfinu til þess að það tali við þessi nýju lög. Það eru sannarlega umtalsverðar kerfisbreytingar sem fylgja því og ég mun gera mitt til þess að reyna að koma því sem fyrst inn í þingið.