151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:55]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Já, við erum með allt það fjármagn sem þarf á næsta ári til að undirbúa innleiðinguna. Síðan er þannig búið um málið að jöfnunarsjóður mun verða með fjármagn sem verður nýtt til að mæta kostnaði sem til fellur vegna þessara lagafrumvarpa, þó aldrei meira en sá kostnaður sem raunverulega fellur til hjá viðkomandi sveitarfélögum vegna þess að þau eru þjónustuveitandinn í mjög mörgum tilfellum. Það verður í raun verkefnið að loknum innleiðingartímanum að greina hvar heildarkostnaðurinn liggur, vegna þess að við teljum að þetta muni mjög fljótt fara að skila ákveðnum ávinningi, bæði hjá sveitarfélögunum og ríkinu. Það mun ekki stranda á þeim sem hér stendur, komi til þess 2022 og 2023, að taka þátt í því að afgreiða fjárveitingar, ef það þarf meira í þetta, svo fremi að hann hljóti umboð til að sitja áfram á Alþingi. Ég held að það hljóti að eiga við um alla þá sem leggja áherslu á þetta mál hér í dag.