151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:59]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Staða ríkissjóðs er sannarlega slæm. En ég held að það séu fá frumvörp, ég hef alla vega ekki lagt fram þau frumvörp, sem hafa fengið jafnmikla hagræna greiningu og það sem hér um ræðir. Það á bæði við um hagræna greiningu til framtíðar sem unnin var af Birni Brynjólfi Björnssyni hagfræðingi en líka dýpri greiningu á kostnaði sveitarfélaga sem unnin var af Haraldi Líndal Haraldssyni, samhliða grunninum að hagrænu greiningunni, þar sem send voru 500 erindi til sveitarfélaga og stofnana til að fá fram hver kostnaðurinn yrði. Heildarkostnaðurinn reiknast mönnum til að sé á bilinu 1,3–2 milljarðar á ári á árunum 2022, 2023 og 2024. Við höfum tryggt allt það fjármagn sem þarf til verkefnisins á árinu 2021. Þegar um er að ræða fjárfestingu sem getur skilað sér á pari við Kárahnjúkavirkjun og Keflavíkurflugvöll, sem er í næsta nágrenni við hv. þingmann, þá spyr ég á móti: Hverjir verða það í nýrri ríkisstjórn sem ætla þá að koma hingað inn á Alþingi og draga þetta lagafrumvarp til baka og tryggja ekki það fjármagn sem þarf til verkefnisins? Ástæðan fyrir því að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er notaður sem eins konar „buffer“, að verkefnið fari í gegnum hann, er sú að ætlunin er ekki að tryggja meira fjármagn en það sem falla á til á fyrstu árunum. Hagræna greiningin sýnir að þetta fer mjög fljótt að skila ávinningi. Sveitarfélög sem hafa verið að stíga sambærileg skref, eins og Hafnarfjörður með brúnni þar og Austurlandsmódelið, að flýta þjónustunni, hafa einmitt sýnt fram á að kostnaður hefur verið að dragast saman. Nýleg tölfræði sýnir það einnig gagnvart þjónustu í barnavernd og þriðja stigs þjónustu. (Forseti hringir.)

Það er gamaldags hagfræði að halda að ekki sé hægt að fjárfesta í börnum og það skili árangri. Það skilar árangri alveg eins og steinsteypa og brýr. (Forseti hringir.) Ég vil bara spyrja á móti: Er hv. þingmaður að boða það að hann ætli ekki að vera í því liði að tryggja fjármagn (Forseti hringir.) til að ráðast í þessa arðbærustu fjárfestingu Íslandssögunnar?