151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[18:04]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég hef sært hv. þingmann skal ég bara biðjast afsökunar á því. Ég vil hins vegar segja að ég rakti það í framsöguræðu minni að fá mál hefðu fengið dýpri hagræna greiningu en einmitt þetta þar sem tveir utanaðkomandi sérfræðingar unnu gríðarlega umfangsmikla greiningu. Við erum að tala um kerfisbreytingu sem á að taka fjögur ár að innleiða. Ástæðan fyrir því að fjármagnið er sett inn með þessum hætti, hugsunin í lögunum er að það fari inn í jöfnunarsjóð, er sú að við ætlum ekki að setja í þetta meira fjármagn en það sem raunverulega fer í að innleiða málið. Á sama tíma verðum við, gagnvart þessum málaflokki eins og öðrum, að vera tilbúin til að ræða málið sem fjárfestingarverkefni vegna þess að það er sannarlega fjárfestingarverkefni.

Ég vil hvetja hv. þingmann til að kynna sér þær hagrænu greiningar sem unnar voru með málinu, bæði af Birni Brynjólfi Björnssyni og Haraldi Líndal. Þær sýna það nákvæmlega að það er gríðarlega arðbært að fjárfesta í æsku (Forseti hringir.) þessa lands. Við erum ekki að veita fjármagn með skynsamlegum hætti. Það getur kostað í upphafi að spara síðar, og þetta mál snýr að því.