151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[18:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér saman þrjú frumvörp til laga, frábær frumvörp, og við fögnum því innilega að þau séu komin inn til þingsins; frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu barna, um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og um Barna- og fjölskyldustofu. Flokkur fólksins segir alltaf: Fólkið fyrst, svo allt hitt. Og í þessu tilfelli getum við bara sagt: Börnin fyrst og svo tökum við allt hitt. Auðvitað eigum við að alltaf setja börnin og velferð þeirra í fyrsta sæti. Þetta er gífurlega metnaðarfullt frumvarp og ég fagna því innilega. Þegar maður les í gegnum það sér maður hve ótrúleg samhæfing þarf að fara fram. Ef við grípum t.d. bara niður í 2. gr. frumvarpsins, um orðskýringar, þá segir í 3. tölulið, með leyfi forseta:

„Farsæld barns: Aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar.“

Þetta er gífurlega mikilvægt en við vitum að það verður gífurlega erfitt að samþætta þetta allt og láta það virka. Ef maður horfir á 5. tölulið segir þar um farsældarþjónustu, með leyfi forseta:

„Öll þjónusta sem mælt er fyrir um í lögum að sé veitt á vegum ríkis eða sveitarfélaga og á þátt í að efla og/eða tryggja farsæld barns. Farsældarþjónusta nær frá grunnþjónustu sem er aðgengileg öllum börnum og/eða foreldrum til frekari stigskiptrar einstaklingsbundinnar þjónustu, meðal annars á sviði menntamála, heilbrigðismála, löggæslu, félagsþjónustu og barnaverndar.“

Þetta segir okkur að það kemur til með að þurfa að samhæfa gífurlegan fjölda einstaklinga, nefnda og annarra sem hafa unnið hver í sínu horni til að þessir aðilar geti unnið saman. Og það er eiginlega frábært.

Við gerum okkur grein fyrir hvernig ástandið er í þjóðfélaginu í dag og hefur verið. Ástandið í málefnum barna var ekkert sérstaklega gott fyrir Covid og við vitum að það hefur versnað í Covid-faraldrinum. Við sjáum það á tíðni heimilisofbeldis og líka á fjölda þeirra barna sem hafa leitað aðstoðar vegna ástandsins sem þau eru í. Þess vegna er svo mikilvægt að við finnum lausnir. Því miður hefur kerfið verið upptekið af því að ýta lausnunum frá sér, að reyna einhvern veginn að setja alla á bið. Ég segi fyrir mitt leyti að það eigi ekki að eiga sér stað í okkar þjóðfélagi að við segjum barni að bíða eftir þjónustu, hvaða þjónusta sem það er. Barnið á ekki að fara á biðlista. Við eigum að vera það framsækið og gott samfélag að við getum gripið börnin, einn, tveir og þrír, og séð til þess að þau þurfi ekki að bíða eftir þjónustu nema þá kannski einhverjar vikur, innan við mánuð. Það er svo mikilvægt að grípa strax inn í svona hluti. Við vitum það og höfum séð það.

Ég sá nú nýlega könnun sem sýndi fram á hvernig ástandið er t.d. á þeim einstaklingum sem eru í afbrotum og gista fangelsi. Stór hluti þeirra flosnaði upp úr barna- og unglingaskólum, er með skrifblindu, lesblindu og hefur lent í skelfilegum málum, einelti og þar fram eftir götum. Við sjáum afleiðingarnar og líka hversu mikilvægt er að grípa strax inn í. Þess vegna er það alveg óskiljanlegt fyrirbrigði að við skulum vera með tvöfalda biðlista á greiningarstöðvar sem greina ADHD og önnur geðræn vandamál hjá börnum. Og eins og ég sagði hér einhvern tímann finnst mér eiginlega stefna í þrefalda biðlista. Það er óásættanlegt. Ég vona svo heitt og innilega að bara með því að við séum komin á það stig að ræða svona gífurlega framsæknar breytingar, sem ég ítreka að ég fagna innilega, förum við strax að vinna þannig að við sjáum þessa tvöföldu biðlista hverfa, að það verði bara einfaldur biðlisti og svo hverfi hann líka.

Eins og hefur komið fram, líka hjá hæstv. ráðherra, skilar þetta sér svo margfalt til baka fyrir þjóðfélagið. En við verðum að átta okkur á því að þetta mun sérstaklega skila sér til barna sem eru í þessum aðstæðum. Það er númer eitt, tvö og þrjú að aðstæður barnanna verði sem bestar og þau fái þá þjónustu sem þau þurfa sem fyrst. Eins og við vitum erum við í þeirri aðstöðu að því miður er bæði fátækt og sárafátækt við lýði í okkar gjöfula landi og það er sorglegt í sjálfu sér. Í hópi þeirra sem búa við fátækt eru börn. Ég segi fyrir mitt leyti að það tekur á að horfa á einhvern bíða með barn úti í röð eftir mat í nístingskulda og hífandi roki. Það er ein birtingarmynd ástandsins. Þess vegna er svo nauðsynlegt að við girðum okkur í brók og förum að taka hlutina alvarlega og koma þeim í lag. Ég tel þetta vera rosalega metnaðarfullt skref. Áðan líkti ég þessu við að klífa Everest. Það er nú Íslendingur sem ætlar að reyna að klífa hið ógurlega fjall K2 að vetri til sem enginn hefur gert. Ég verð eiginlega bara að lýsa því yfir að eftir því sem ég les þetta frumvarp betur finnst mér það sýna slíkan metnað. Ég hvet ráðherra og vona heitt og innilega að honum takist að samþætta alla þessa hluti og fá alla með sér í að byggja upp þetta mikilvæga mál svo að þarna fáist heildræn sýn yfir öll þau vandamál sem börn geta lent í og að þau verði þar af leiðandi gripin um leið og þörf er á.

Það er eitt líka sem kemur upp í 14. tölulið 2. gr., í orðskýringum, sem sýnir hversu viðamikið þetta er. Þar er talað um þjónustuveitanda. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Sá sem veitir farsældarþjónustu, hvort sem hann er hluti af stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélags eða einkaaðili sem veitir slíka þjónustu á vegum ríkis eða sveitarfélags, t.d. á grundvelli þjónustusamnings. Til þjónustuveitenda teljast t.d. leikskólar, grunnskólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, framhaldsskólar, heilsugæsla, sérhæfð heilbrigðisþjónusta, lögregla, félagsþjónusta og barnavernd.“

Það sýnir okkur hversu gífurlega mikið er undir í þessu samhengi að í frumvarpi um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála kemur fram orðrétt í 1. gr., með leyfi forseta:

„Stofnunin fer með eftirlit með gæðum þjónustu sem er veitt á grundvelli laga um barnavernd, laga um Barna- og fjölskyldustofu, laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, laga um málefni aldraðra, laga um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.“

Þetta sýnir okkur svart á hvítu hversu gífurlega viðamikil þessi þrjú frumvörp eru og hve mikilvægt það er í sjálfu sér að við skulum vera komin á það stig að sameina þetta og koma öllum þessum þremur frumvörpum í gegnum þingið. Frumvarpið mun fara til velferðarnefndar eins og gefur að skilja. Þar mun ég svo sannarlega taka vel á móti því og raunar vona ég heitt og innilega að sem flestir sendi inn greinargerðir og hugmyndir um hvernig best sé vinna að þessum málum. Við þurfum líka að átta okkur á því að því miður er staðan sú í dag að mismununin er gífurlega mikil. Oft verður maður eiginlega orðlaus þegar maður fær ábendingar um að barn fái ekki þá þjónustu sem maður myndi halda að væri sjálfsögð vegna þess að kerfið er einhvern veginn ekki tilbúið til að taka á vandamálinu. Þótt lausnin sé til í kerfinu er eins og kerfin tali ekki saman. Það sem gerist á einum stað talar ekki við hinn staðinn. Þar af leiðandi fær eitt barn þjónustu á þeim grundvelli en annað ekki. Það er auðvitað gjörsamlega óþolandi. Þetta er því miður oft að rekast á í þjónustu á vegum heilbrigðisráðuneytisins, félagsmálaráðuneytisins og sveitarfélaganna.

Ef við samþættum þjónustuna, eins og stendur til með þessum frumvörpum, erum við á virkilega góðri leið. Eins og hefur komið fram eigum við ekki að horfa í kostnað. Það getur aldrei talist eðlilegt að tala um kostnað þegar við erum að tala um velferð barna. Þar á kostnaðurinn ekki að koma inn í. Það segir sig sjálft, bæði fyrir velferð barnsins og líka fyrir þjóðfélagið, að það er bara hreinn og beinn gróði fyrir alla að sjá til þess að börn fái þá þjónustu sem þau eiga fullkomlega rétt á. Eins og ég hef sagt og ítreka nú þurfum við að setja börnin fyrst og síðan kemur allt hitt. Við eigum aldrei að setja börn á bið. Það á ekki að líðast í okkar landi. Börn eiga rétt á þjónustu, einn, tveir og þrír, og það mun ég segja að sé 100% réttur þeirra.