151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[18:33]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. félags- og barnamálaráðherra fyrir þetta tímabæra frumvarp. Ég tel að sá víðtæki stuðningur sem þetta mál nýtur sé afrakstur þess að málið fæðist í þverfaglegu samstarfi og þverpólitísku. Mér sýnist kjarni þessara frumvarpa og þessarar vinnu vera að kerfin okkar tali einfaldlega betur saman. Það hefur ekki alltaf verið staðan í þessum málaflokki og kannski ekki í stjórnsýslunni almennt séð heldur. Ég held að það verði til mikils unnið og mikill ávinningur af því að breikka myndina sem kerfið horfir á, að hverfa frá þessari rörsýn og finna leiðir til þess að kerfin, og kerfið, nálgist mál og málefni barna með heildrænum hætti.

Mér hefur fundist mjög jákvætt og skemmtilegt að sjá og heyra áherslur hæstv. félags- og barnamálaráðherra í þessum málaflokki, að hann setji málefni barna í brennidepil með þessum frumvörpum og er sérstaklega hrifin af þeirri nálgun hans að ætla að tryggja snemmtækan stuðning, að finna leiðir til að tryggja forvirkar aðgerðir og að þær virki og að við náum þannig að búa til almennilegt öryggisnet fyrir börn, sérstaklega börn í viðkvæmri stöðu. Við náum þannig utan um fjölþættan vanda barna innan heimilis og innan skólakerfisins.

Ég tek undir þau orð hæstv. félagsmálaráðherra í framsöguræðu hans hér fyrr í dag að það muni beinlínis reynast þjóðhagslega hagkvæmt að gera þetta. En ég vildi samt bæta við þá röksemdafærslu að þetta sé engu að síður málaflokkur af því tagi að ekki ætti að þurfa efnahagslegu rökin til. Þetta er einfaldlega verkefni sem okkur sem samfélagi ber skylda til að sinna vel og af alúð. Ég trúi því að með því að tryggja sterkt og gott velferðarnet og öryggisnet í þágu barna sé hægt að bregðast við þegar barn er í erfiðleikum, verður fyrir áföllum eða býr við aðstæður sem teljast óviðunandi en kannski ekki síður að koma einfaldlega í veg fyrir þær aðstæður. Við vitum held ég flest að fylgni er milli áfalla og erfiðleika í æsku og þess sem kemur síðar á lífsleiðinni, veikinda, örorku og fátæktar. Það held ég að ég geti fullyrt úr mínu fyrra starfi varðandi ofbeldi inni á heimilum, vanrækslumál sem byrja þannig að barnavernd hefur afskipti af heimili og síðan er stígandi í þeim aðstæðum þar til lögregla er komin inn í málið. Þar hefur t.d. orðið sú þróun á undanförnum árum að þegar verið er að rannsaka og saksækja menn fyrir ofbeldi gagnvart maka inni á heimili er það í dag talið sjálfstætt brot, líka gagnvart barni þó að barnið sjálft hafi ekki orðið fyrir líkamlegu ofbeldi heldur einfaldlega orðið vitni að því, sem sýnir að við erum farin að horfa á þau mál öðrum augum en áður var.

Fyrir liggur stór rannsókn ACE sem hefur verið í gangi síðan 1995 en niðurstöður hennar sýna með óyggjandi hætti fram á tengsl erfiðrar æsku, upplifana og áfalla í æsku, og heilsufarsvanda síðar á ævinni. Þau rök finnst mér ein og sér réttlæta það að við séum að fara af stað með vinnu sem þessa og það ætti í sjálfu sér að vera okkur öllum hvatning í okkar persónulega lífi, umhverfi, nágrenni og kerfum til að gera betur og vera öll í því hlutverki að gæta barna.

En varðandi þetta meginstef frumvarpsins, að kerfin tali betur saman, þá skil ég málið líka svo að hér sé verið að tala fyrir einföldun kerfa og jafnframt að kerfin eigi að vera til staðar fyrir fólk og veita einstaklingsbundna þjónustu og þjóna þannig tilgangi sínum þannig að kerfið sé til staðar fyrir fólkið en sé ekki fast í einhverju því verklagi og ferlum að ná þeim tilgangi ekki fram og liður í því er samfella í þjónustu og samvinna. Ég myndi varðandi það mál kannski beina því sérstaklega til félagsmálaráðherra að horfa til þess hver veruleikinn er í dag varðandi biðlista eftir úrræðum eða greiningu sem eru í mörgum tilvikum svo langir að þeir eru einfaldlega stór hluti af æsku barna. Barn sem er að byrja í skóla sex ára gamalt og hefur verið á biðlista í eitt eða tvö ár eftir greiningu hefur einfaldlega verið í þeirri stöðu drjúgan hluta ævi sinnar. Því þarf að breyta.

Síðan kemur hið gamalkunna stef minni hlutans hér á þingi að eitt sé að setja regluverk en annað er að tryggja regluverkinu raunverulegt líf, þ.e. að tryggja málaflokknum nægjanlegt fjármagn þannig að hægt verði að framfylgja reglum og að áherslubreytingar verði eitthvað sem við sjáum í reynd í framkvæmd. Það eru bæði varnaðarorð og hvatningarorð til hæstv. félagsmálaráðherra að tryggja það að góð vinna, sem hefur greinilega verið í gerjun í nokkurn tíma, eigi þess kost að raungerast og það verði gert með fjármagni. En ég trúi því og finnst ég merkja það á því hvernig félagsmálaráðherra hefur talað að hann standi af einlægni á bak við þetta frumvarp og ég trúi því að hann muni beita sér fyrir því að fjármagn verði ekki til þess að draga úr þeim framfaraskrefum sem stigin verða ef frumvarpið verður að lögum.