151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[19:35]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna í þessu máli. Ég bað um andsvar til þess einmitt að tala um að Píratar hafa komið að þessum málum. Mér fannst ræða hv. þingmanns góð og skilningur á mikilvægi þess að grípa snemma inn í. Hv. þingmaður kom inn á það í lok ræðu sinnar að sá hv. þingmaður sem hún leysir af, Halldóra Mogensen, sem nú er í fæðingarorlofi, kom einmitt að þessari vinnu og gerði það af miklum heilindum, allt frá fyrsta degi. Við höfum eldað grátt silfur saman í ýmsum málum, bæði þegar hún var formaður velferðarnefndar og eins í öðrum málum, en í þessu máli vann hv. þingmaður af fullum heilindum og af miklum krafti. Mér fannst rétt að það kæmi fram í þingsal vegna þess að hún er ekki stödd hér í dag, en eins og áður sagði er hv. þingmaður að leysa hana af meðan hún er í fæðingarorlofi.