151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

19. mál
[20:03]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar ég las nefndarálit 1. minni hluta velti ég fyrir mér: Um hvað er þessi 1. minni hluti eiginlega að tala? Ég er engu nær. Ég er engu nær hvert hann er að fara eftir framsögu hv. þm. Loga Einarssonar. Hér er talað um jákvæðar breytingar frá fyrra frumvarpi. En þó að 1. minni hluti sé um margt sammála meginmarkmiðum þess stendur enn of margt út af til að málið geti talist fullbúið. Ég er engu nær um það hvað stendur út af. Getur hv. þingmaður kannski upplýst mig eitthvað um það? Eða var þetta nefndarálit samið til að geta komið helstu frösum að, eins og ESB án þess að nefna það, hamfarahlýnun, jafnrétti kynjanna o.s.frv.? Er ekki hægt að vera á nefndaráliti með meiri hlutanum úr því að frumvarpið er til bóta? Það eru engar aðrar tillögur í þessu nema að það þyrfti helst að fara í heildarendurskoðun áður. Er þetta ekki bara betra en það sem fyrir er? Er ekki bara hægt að samþykkja það og vera með á því? Svo förum við bara í heildarendurskoðun síðar. Er eitthvað því til fyrirstöðu? Eða um hvað er þetta nefndarálit?