151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

eingreiðsla til ellilífeyrisþega.

[10:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég spyr mig aðeins að því hvað átt sé við þegar talað er um mismunun, mismunun fyrir jólin. Við erum hér með ýmiss konar stuðningskerfi. Eitt kerfið sem við þekkjum ágætlega og ræðum iðulega í þingsal er það sem sniðið er að þörfum öryrkja. Annað kerfi er það sem sniðið er að þörfum ellilífeyrisþega. Þau ganga ekki alveg eftir sömu lögmálum, þessi tvö kerfi, enda eru þau fyrir mjög ólíka hópa. Ef við myndum taka okkur tíma í að skoða þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna þess hóps sem hér er sérstaklega beint sjónum að, þ.e. ellilífeyrisþegum, myndum við taka eftir því að kaupmáttur ráðstöfunartekna allra tekjutíunda ellilífeyrisþega hefur stóraukist á undanförnum árum. Reyndar er frá árinu 1991 ekki hægt að finna annað jafn öflugt tímabil í vexti kaupmáttar ráðstöfunartekna eins og síðastliðin fimm til sex ár. Þetta er mjög auðvelt að framkalla ef menn fara inn á vefinn tekjusagan.is, sem er frábær vefur til að fá fullt gagnsæi á þessa hluti. Af þessu erum við stolt. Við rekjum þetta m.a. til breytinganna sem gerðar voru á Alþingi árið 2016. En það kemur fleira til vegna þess að þessi hópur fær sömuleiðis auknar lífeyristekjur ár eftir ár og hefur notið góðs af almennum, umsömdum launahækkunum hér á landi undanfarin ár sem bætast við um hver áramót. Samverkandi þættir þessa hafa leitt til þess að kjörin fyrir allar tekjutíundir þessa hóps, þ.e. ellilífeyrisþega, hafa verið að batna ár frá ári og gera það enn á næsta ári.