151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

uppgreiðslugjald Íbúðalánasjóðs.

[10:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að segja að þetta fyrirkomulag, þetta kerfi sem þarna var smíðað, hefur algerlega brugðist. (Gripið fram í: Já.) Það hefur brugðist þeim sem ætluðu að treysta á það vegna þess að þeir töldu sig vera að fara í faðm stofnunar með húsnæðislánamál sín sem byði bestu mögulegu kjör innan lands yfir lánstímann. Það var ekki að furða vegna þess að við byggðum kerfið þannig upp að ríkissjóður var í eiginlegri ábyrgð fyrir starfseminni sem tryggði sjóðnum við útgáfu skuldabréfa þá bestu mögulegu vexti sem lánastofnanir gátu tryggt sér. Og þegar eingöngu voru veitt lán gegn fyrsta veðrétti í fasteignum átti ekki að vera hægt að toppa þann fjármagnskostnað sem stofnunin gat tryggt sér og vildi deila með viðskiptavinum sínum. En vegna innbyggðra galla í uppbyggingu þessa kerfis hrundi þetta á endanum til grunna með hrikalegum afleiðingum fyrir ríkissjóð. Þar kom reyndar fleira til, eins og við höfum lesið um í sérstakri skýrslu um þetta mál, m.a. lán til leigufélaga og ríkissjóður hefur reitt fram a.m.k. um 50 milljarða upp í það gat. Og svo höldum við á gamla lánasafninu, ætli það megi ekki reikna hallann á gamla lánasafninu hátt í 200 milljarða í dag eftir vaxtalækkanir. Það sem við ætlum að gera í þessu máli er að við ætlum að reyna að fara eins skjóta leið og hægt er í gegnum dómskerfið og við munum láta reyna á sérstaka heimild í lögunum til þess að óska eftir beinni meðferð fyrir Hæstarétti, fram hjá Landsrétti, til þess að málsmeðferðartíminn verði sem allra stystur.