151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:31]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir svarið. Ég tók núna 69. gr. með mér og ætla að vísa orðrétt í 2. málslið þar sem verið er að tala um bætur almannatrygginga:

„Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Ég er náttúrlega bara aumur lögfræðingur en staðreyndin er sú að það er fyrri hluti þessa málsliðar sem er sá sem á fyrst og fremst að líta til, sem sagt launaþróunar. Hins vegar ef launaþróun er lægri en neysluvísitalan þá verður að taka vísitölu neysluverðs. Það er nú allur vandinn með þessa grein og ég get ekki skilið hvernig í veröldinni er hægt að rangtúlka hana svona, því að það sem gildir hér er samkvæmt orðanna hljóðan en hefur verið í rauninni mistúlkað.

Hvað lýtur að jólabónusnum þá hefur hann hjá öllum sem hafa fengið þennan jólabónus verið skattlagður og skertur og allt það, en þessar 50.000 kr. er sérstök uppbót núna, (Forseti hringir.) þannig að ég vænti þess að hv. þingmaður taki hreinlega utan um lægstu tekjutíundir eldri borgara og aðstoði þá við að fá slíkt hið sama núna fyrir jól.