151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, við erum kannski að tala um sömu tölurnar. Það er ánægjulegt að formaður fjárlaganefndar er ekki að hrekja mínar tölur. Ég ætla ekki að hrekja hans tölur. Þetta snýst um samhengið. Þegar við erum með ríkisstjórn sem stærir sig af grænni byltingu mánuðum saman, blaðamannafund eftir blaðamannafund, þá getur það ekki staðið undir þeim stóru orðum þegar aukningin er 0,1% af landsframleiðslu. Við miðum yfirleitt við landsframleiðslu, það er ekki rangur samanburður, það er ekki ósanngjarnt. Að setja 3 milljarða aukalega í umhverfismál er ekki byltingin sem þjóðin er að kalla eftir. Við erum með 1.000 milljarða í fjárlögum. Landsframleiðslan er 3.000 milljarðar. Heildarmálaflokkurinn umhverfismál fær 24 milljarða. Af hverju er það ekki meira? Það eru 2,4% af fjárlögunum og enn minna af landsframleiðslu.

Jú, það er búið að bæta í umhverfismál, fyrr má nú vera, þau voru nánast ekki til fyrir nokkrum árum. En þegar við erum með 1.000 milljarða kr. plagg og við setjum 2–3% í umhverfismál af því öllu þá er það of lítið, umhverfismál eru stærri málaflokkur en það. Sama á við um nýsköpunina, hún fær um 26 milljarða. Það er auðvelt að reikna þetta, fjárlögin eru 1.000 milljarðar, og 2,6% fara í nýsköpun. Ég veit ekki hversu margir myndu samþykkja að 2,6% í nýsköpun sé nægilegt til að mæta dýpstu kreppu í 100 ár. Viðbótin er 0,3% af landsframleiðslu. Er það að svara kalli nýsköpunargeirans og atvinnulífsins um að veðja á nýsköpun? Af hverju setjum við ekki meiri fjármuni í þetta? (Forseti hringir.) Það væri hægt að margfalda þessar tölur því að þetta eru svo lágar tölur til að byrja með.