151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar hjartanlega fyrir andsvarið og einnig fyrir mjög gott samstarf í nefndinni í vetur. Ég tek eftir því að hv. þingmaður talar um 600 millj. kr. sem hafa verið settar til sveitarfélaga til þess að koma til móts við og jafna stöðu barna og gefa fátækari börnum kost á að stunda íþróttir og annað. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður veit að í Reykjavík, höfuðborginni, er einmitt líka gert ráð fyrir því að börn fái svokallað frístundakort. En einkennilegt nokk að ef foreldrar, sem eru venjulega mjög fátækt fólk, skulda eitthvað í kerfinu er frístundakort barnsins látið borga það, þannig að eftir stendur núll. Hugsaðu þér, hv. þingmaður, frístundakort barnsins í borginni er tekið og notað í aðrar skuldir sem foreldrið er með gagnvart sveitarfélaginu, t.d. frístundaheimili eða eitthvað slíkt. Frístundakortið! Sko, þetta er ekki rétt forgangsröðun. Þetta er bara sorglegt. Við ættum kannski einhvern veginn að reyna að tryggja það, fyrst þessi velvilji er til staðar, 600 milljónir til sveitarfélaga til að koma til móts við þetta, að þessum fjármunum verði eingöngu varið til barnanna því að flest eiga þau það fátæka foreldra. Það er því ekki óeðlilegt að einhvers staðar hafi safnast upp skuldir sem foreldri eða foreldrar hafa ekki ráð og getu til að greiða jafnóðum. Því miður.