151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[20:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér óvenjuleg fjárlög á óvenjulegum tíma og ég held að það megi slá því föstu að varla nokkurn tímann hafi fjárlaganefnd staðið frammi fyrir öðru eins verkefni, ekki bara vegna þess umróts sem verið hefur í opinberum fjármálum í kjölfar kórónuveirufaraldursins, heldur líka vegna þess að þingsetningu var frestað um mánuð núna í haust. Þannig að ofan á efnahagslega óvissu bættist þrengri tímarammi fyrir nefndina til að vinna úr málum. Efnahagslega óvissan hrærist síðan saman við og verður þess valdandi að afgreiðsla frá nefnd frestaðist um tvær vikur frá því sem lagt var upp með. Lærdómurinn af þessu verður kannski sá að næst þegar allt fer á hvolf, eins og gerðist á þessu ári, sé lítið unnið með því að gefa ráðuneytum frest til að geta í eyðurnar í þjóðhagsbókhaldinu af því að vandinn færist yfir til þingsins. En hér stöndum við alla vega með fjárlagafrumvarp sem afgreitt hefur verið frá fjárlaganefnd. Sá vandi endurspeglast náttúrlega í frumvarpinu og tillögunni sem ríkisstjórnin var komin í alveg óháð kórónuveirufaraldrinum, að það er mjög flókið að vinna sómasamleg fjárlög ofan í þær ófjármögnuðu skattalækkanir sem einkennt hafa kjörtímabilið og vekur vissa furðu að áfram sé haldið á þeirri braut, að við hér á þinginu séum með frumvörp frá fjármálaráðherra til afgreiðslu þessa dagana um að halda áfram að lækka fjármagnstekjuskatt og erfðafjárskatt, svo dæmi séu tekin. Maður hefði ekki endilega skotið á að það væri ofarlega á blaði þegar jafn stórt gat verður í fjárhag ríkisins og nú er.

Eðli málsins samkvæmt eru viðbrögð við Covid-krísunni allsráðandi í fjárlagafrumvarpinu. Stærstu tölurnar mætti næstum því kalla einhvers konar spegilmynd af sjálfvirka sveiflujafnaranum, að þegar atvinnuleysi eykst þá hækka eðlilega framlög til atvinnuleysisbótakerfisins og samhliða því hafa verið búin til ný stoðkerfi til þess að halda samfélaginu gangandi, fyrirtækjunum, og fólki í vinnu, sem er einfaldlega skynsamleg ráðstöfun á tímum þar sem ekki er nýja vinnu að fá þegar fólk missir vinnuna. Þá er eðlilegt að ríkissjóður stígi inn og skapi grundvöll fyrir störf.

Hvað varðar atvinnuleysisbæturnar þá stingur enn þá dálítið í stúf að ekki hafi verið tekið utan um þann hóp fólks sem missti vinnuna í byrjun árs áður en kórónuveiran fór að gera sínar skráveifur, vegna þess að farið var að kreppa að strax um síðustu áramót og jafnvel fyrr. Þess vegna er stór hópur sem ekki nýtur þeirrar framlengingar á tekjutengdum atvinnuleysisbótum sem boðið hefur verið upp á fyrir það fólk sem missti vinnuna í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Eins er rétt að nefna það sem kalla mætti dulið atvinnuleysi meðal námsmanna sem þurfa venjulega í miklum mæli að reiða sig á vinnu með skóla, en hana er ekki að fá í sama mæli núna og í meðalári. En þrátt fyrir að hafa greitt gjöld af tekjum sínum árum saman hafa stúdentar ekki rétt til atvinnuleysisbóta í sama mæli. Varðandi stúdenta mætti líka nefna að það að grunnframfærsla námslánakerfisins hafi ekki verið hækkuð samhliða því að nýtt námslánakerfi var tekið upp hefur magnandi áhrif á kreppuna sem knýr dyra hjá stúdentum þessa dagana.

Þá er erfitt annað en að nefna ábendingar sem koma fram, ekki bara í umsögnum heldur í frumvarpinu sjálfu, varðandi áhrifamat á aðgerðum ríkisstjórnarinnar, þá staðreynd að fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar fær í raun falleinkunn í kynjamati að því leyti að um 85% þeirra starfa sem þar urðu til voru í geirum þar sem karlar eru í miklum meiri hluta, á sama tíma og hóparnir sem þörf er á atvinnusköpun fyrir eru ungt fólk, erlendir ríkisborgarar og konur. Þessa falleinkunn fær fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar ekki bara í umsögnum sérfræðinga sem skila inn til þingsins heldur er það bara sagt berum orðum í greinargerð frumvarpsins og ætti að vera okkur nokkurt umhugsunarefni um hvaða áhrif mat á áhrifum hefur. Það er einfaldlega lagt fram og engar breytingar gerðar. Að fjárfestingarátakinu hafi ekki verið umturnað til að það endurspeglaði betur þörfina, það er eitthvað sem þarf að læra af.

Þótt við séum að kljást við tímabundna og nokkuð djúpa krísu vegna krónuveirufaraldursins megum við ekki gleyma þeirri krísu sem er undirliggjandi og mun sækja í sig veðrið á næstu árum, sem er loftslagskrísan. Þar liggur mikið á að ná tökum á ástandinu. En ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum þegar hæstv. forsætisráðherra tilkynnti í dag að til stæði að auka metnað ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, að færa markmið um samdrátt úr 40% upp í 55%, ekki bara vegna þess að þetta eru metnaðarlítil markmið, þetta eru markmiðin sem við megum reikna með því að berist til okkar í gegnum Evrópusambandið hvort eð er, heldur vegna þess að þetta átti að gerast fyrr. Þetta hefði átt að gerast í febrúar. Hefði þetta gerst í febrúar, eins og Parísarsamningurinn gerir ráð fyrir, hefði verið hægt að stilla upp aðgerðaáætlun sem kom út í júní miðað við 55% markmiðið en ekki 40%. Þá hefðu aðgerðir í þessu fjárlagafrumvarpi getað miðað við þennan nýja, aukna metnað. Þá hefðum við ekki afgreitt tekjubandorm fyrir örfáum dögum án þess að bæta inn aðgerðum til að hraða orkuskiptum, að hvetja aðgerðir í loftslagsmálum. Þetta er í rauninni hræðileg tímasetning hjá forsætisráðherra, að boða aukinn metnað ofan í lokametrana á vinnu þingsins við rammann sem settur er fyrir allt næsta ár. Þrátt fyrir að metnaðurinn sé í dag settur í 55% þá verður næsta ár 40% ár þegar kemur að markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum, einfaldlega vegna þess að ríkisstjórnin var of sein að átta sig. Það er reyndar óskiljanlegt vegna þess að í desember á síðasta ári kom Evrópusambandið fram með þá stefnu að auka metnað sinn úr 40% í 50–55%. Í febrúar í ár hækkaði Noregur sig úr 40% í 55%. Í júní samþykkti danska þingið 70% samdrátt í lögum um loftslagsmál. Í september festi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins markið á 55% og í október sagði Evrópuþingið að það vildi fara upp í 60%. Í gegnum Evrópu vinnum við að loftslagsmálum þannig að ríkisstjórnin vissi að þessi markmið yrðu sameiginleg okkur, hvort sem það var í desember á síðasta ári eða í febrúar eða í júní eða í september eða október. Allir þessir tímapunktar hefðu verið betri til að tilkynna aukinn metnað til þess að við gætum tekið tillit til þess í áætlanagerð næsta árs.

Ég nefni þetta bara til að undirstrika hversu sorglegt það er að missa af tækifæri til að hrinda þessum meinta metnaði ríkisstjórnarinnar í framkvæmd á næsta ári. En svo ég sé ekki bara með einhvern bölmóð varðandi loftslagsmálin þá langar mig líka að nefna það sem kalla mætti sóknarfæri sem íslenskt samfélag má ekki missa af. En þegar ég hlustaði á hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra svara óundirbúinni fyrirspurn frá hv. þm. Loga Einarssyni núna í morgun þá runnu á mig tvær grímur þegar ráðherrann sagði að núna væri verið að vinna að því að gera einkageiranum betur kleift að koma inn í vinnu að loftslagsmálum með sérstöku frumvarpi um ívilnanir og skattalega hvata til fjárfestinga í grænum lausnum. Gott og vel. En þögn stjórnvalda er svo hrópandi þegar kemur að fjármagni í samfélaginu, þegar kemur að því að virkja lífeyrissjóðina okkar og önnur fjármálafyrirtæki í samfélaginu til þess að færa sig úr fjárfestingum í mengandi iðnaði og yfir í það að vera hluti af lausninni og styðja grænar fjárfestingar. Það er einfaldlega þannig að það eru dúndrandi tækifæri fyrir íslenskt samfélag og íslenskt atvinnulíf að stíga snemma fram á sviðið með alvöru græna fjárfestingarmöguleika. Það hvetur ekki bara áfram nýsköpun og velsæld í samfélaginu heldur getur það líka verið lóð á vogarskálar þess að sigur vinnist í baráttunni gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Þessi lest er farin af stað og hún kemur til okkar, hvort sem við viljum það eða ekki. Evrópusambandið er búið að samþykkja grænan fjárfestingarramma sem mun örugglega hafa áhrif í gegnum EES-samninginn. Evrópusambandið er búið að samþykkja reglur um græn skuldabréf sem munu örugglega hafa áhrif á íslensk fjármálafyrirtæki. Það sem skiptir máli, og það sem mér finnst hæstv. ráðherra vera dálítið sofandi fyrir, er að stíga fram áður en við verðum að gera það, að vera tilbúin þegar heimurinn bankar upp á og vantar möguleikann á að fjárfesta hér á landi. Ísland situr bara og bíður, ef eitthvað er að marka svör ráðherrans.

En þá er kannski ekki úr vegi að minna á tillögur þess sem hér stendur, sem eru nú til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd, um að fjármálaráðherra setji saman starfshóp, aðila úr fjármálakerfinu og sérfræðinga á sviði umhverfismála, til að gera tillögur að leiðum fyrir íslenskt fjármálakerfi til að vera í fararbroddi í grænni fjárfestingu og þróun sem miðar að jarðefnalausu samfélagi. Þetta gæti verið eitt stærsta skrefið í átt að kolefnishlutleysi hér á landi.

Mig langar aðeins að nefna stöðu eða uppsafnaðan halla ríkisstofnana sem kristallast einna mest í stöðu Landspítalans sem, að ég held, þrír ólíkir minni hlutar fjárlaganefndar leggja til að klippa af á einhvern hátt. Það held ég að sé skynsamleg ráðstöfun og það væri freistandi að segja: Ja, hvers konar vinstri flokkur er í ríkisstjórn sem ekki leggur þetta til í fjárlagafrumvarpi? Ég ætla ekki að gera það, heldur ætla ég að spyrja: Hvers konar íhaldsflokkur er í ríkisstjórn sem leggur þetta ekki til? Vegna þess að eitt af því allra fyrsta sem Boris Johnson og ríkisstjórn hans gerðu á Bretlandi, þegar kórónuveirufaraldurinn hóf innreið sína, var að núllstilla efnahagsreikning heilbrigðiskerfisins. Þar voru afskrifaðar uppsafnaðar skuldir heilbrigðisstofnana upp á 13 milljarða punda, sem ég veit að er rosalega stór upphæð. Heilbrigðisráðherrann þar sagði: Meðan við erum að taka á þessum faraldri á enginn í heilbrigðiskerfinu að missa fókus vegna þess að hann er með áhyggjur af fjármálum spítala síns. Þetta geta breskir íhaldsmenn og það er vonandi að íslenska íhaldið geti stutt þær tillögur sem liggja hér fyrir um að klippa halann aftan af Landspítala.

Af því að tíminn er farinn að styttast held ég að ég ætli rétt að fá að nefna eitt smáatriði sem mér finnst eiga sérstakt erindi við fjárlaganefnd fyrir þá vinnu sem er fram undan við fjárlög á milli 2. og 3. umr. og þá vinnu sem er fram undan vegna fjármálaáætlunar. Þá er kannski rétt að byrja á því að nefna að í dag er alþjóðlegur dagur mannréttinda, stór og merkilegur dagur, en hér á landi hefur allt of lengi verið látið ógert að stofna sjálfstæða, innlenda mannréttindastofnun sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna um mannréttindastofnanir. Þroskahjálp bendir á í umsögn sinni við fjárlagafrumvarpið að það eftirlit sem nú er hér á landi með því að fatlað fólk njóti þeirra mannréttinda sem áréttuð eru og varin í samningi um réttindi fatlaðs fólks sé engan veginn fullnægjandi, og að stofna mannréttindastofnun væri skref í rétta átt. Þetta væri skref í rétta átt fyrir mannréttindi okkar allra, hvaða hópi sem við tilheyrum. Þetta er sérstaklega mikilvægt núna vegna þess að aldrei kreppir jafnmikið að mannréttindum og einmitt á umbrotatímum eins og við erum að ganga í gegnum núna.

Mig langar þess vegna að benda hv. fjárlaganefnd á að dómsmálaráðherra birti á síðasta ári áform um að koma á fót slíkri stofnun, en í fyrradag birtust niðurstöður úr því samráðsferli þar sem segir: Þar sem ekki var gert ráð fyrir stofnuninni í fjármálaáætlun var frumvarpið ekki lagt fram. Ég vil beina því til fjárlaganefndar að gera ráð fyrir sjálfstæðri mannréttindastofnun í fjármálaáætlun og bæta við fjármunum milli 2. og 3. umr. fjárlaga svo að eftir einhver ár, þegar Ísland verður skammað fyrir að hafa ekki komið þessari stofnun á fót, geti dómsmálaráðherra ekki bent á fjárveitingavaldið og skellt skuldinni á okkur. Það er mikilvægt að koma þessari stofnun á fót. Það gerum við greinilega með því að búa til rými í fjárlögum og fjármálaáætlun. Ég vænti þess að málið fái góða umfjöllun í fjárlaganefnd.