151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:32]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að vera á svipuðum slóðum og hv. þm. Oddný Harðardóttir og mótmæla orðum hv. þm. Birgis Ármannssonar um tryggingagjaldið því að þetta lýtur að því. Það er vel hægt að samþykkja breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið og síðan samþykkja í kjölfarið á því breytingar á öðrum lögum. Við þurfum ekki kennslustund frá hv. þingmanni hvað það varðar. En fyrst hv. þingmaður nefndi sérstaklega sýndarmennsku þá er það fullkomin sýndarmennska hjá Sjálfstæðismönnum að ganga til þjóðarinnar með reglulegu millibili og tala um að þeir styðji skattalækkanir og síðan hafa þessir blessuðu þingmenn ótal tækifæri til að lækka skatta eins og tryggingagjald á lítil og meðalstór fyrirtæki og þá er það fellt. Það er sýndarmennska. Ef þið styðjið lækkunina, af hverju styðjið þið þá ekki þessa tillögu? Það eru fjölmargar tillögur hér frá fjölmörgum flokkum sem lúta að því að lækka álögur á fyrirtæki. Hver er með sýndarmennsku, herra forseti?

(Forseti (SJS): Forseti ætlar ekki að reyna að skera úr um það.)