151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[14:42]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það eru fleiri en Flokkur fólksins sem hugsa um heilbrigði landans og vilja gera allt til að koma í veg fyrir niðurskurð á því sviði. Við vitum að Landspítali – háskólasjúkrahús barðist í bökkum fyrir Covid, hvað þá núna. Hér eru aðhaldskröfur á spítalann og hann er búinn að safna skuldum upp á tæpa 4,3 milljarða kr. Það er nákvæmlega það sem felst í þessari tillögu Flokks fólksins, að hækka framlög og fella hreinlega niður uppsafnaðar skuldir Landspítala – háskólasjúkrahúss þannig að þeir byrji með hreint borð og við séum ekki að draga úr ómskoðunum eða frekari rannsóknum eða þjónustu við sjúklinga í landinu.

Virðulegi forseti. Það er í rauninni síðasta sort að ætla að ráðast á okkar stærstu heilbrigðisstofnun og krefjast aðhaldsaðgerða um leið og þeir eru að glíma við þennan uppsafnaða vanda. Sýnið nú djörfung og dug eins og þið eruð alltaf að tala um, hæstv. ríkisstjórn, og bara strikið þetta út.