151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[14:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Með því að greiða þessu atkvæði gefst ríkisstjórnarflokkunum tækifæri til að standa við orð sín um að setja geðheilbrigðismál í forgang. Geðheilbrigði þjóðarinnar á Covid-tímum, á hamfaratímum, er í hættu. Við þurfum að gera meira en það sem nú er gert þegar margra vikna og mánaða bið er eftir því að komast í einn sálfræðitíma hjá heilsugæslunni. Þó að það sé góðra gjalda vert að byggja þá þjónustu upp þá þurfum við á þessum tímum að gera enn betur. Við þurfum að tryggja að börn, ungmenni og fullorðnir, og ekki síður eldri borgarar, geti, án þess að þurfa að húka á biðlistum vikum og mánuðum saman, fengið nauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu. Hér er hægt að styðja við það og fylgja því sem Alþingi samþykkti hér í vor, að niðurgreiða sálfræðiþjónustu.