151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:02]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Þetta er breytingartillaga frá okkur í Miðflokknum um að setja 300 milljónir í meðferðarstöðina hjá SÁÁ. Þetta er sá peningur sem vantar upp á til að hægt sé að halda úti þjónustu á sama hátt og hún var fyrir Covid og áður en álfasalan, sem hefur verið notuð sem sjálfsaflafé til að geta haldið úti lágmarksrekstri, datt niður.

Hér er næsta tillaga á eftir upp á 200 millj. kr. Það vantar þá 100 milljónir upp á þegar hún er borin upp. Sjálfsagt þarf þá að fara í fjáröflun hjá Ríkisútvarpinu eins og var gert um daginn og tókst bærilega. Ég bind kannski frekar vonir við að á komandi mánuðum muni hæstv. fjármálaráðherra setjast niður með forráðamönnum SÁÁ og semja myndarlega við þá þannig að við getum eytt biðlistum sem á hafa verið á milli 500 og 700 manns síðustu árin.