151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:39]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Í þessari tillögu felst að við tökum undir kröfu eldri borgara um að þeir fái sömu krónutöluhækkun og aðrir hópar, þeir fái 15.750 kr. Hver einasti þingmaður hefur heyrt frá samtökum eldri borgara sem leggja áherslu á það. Sú eðlilega krafa eldri borgara ætti ekki að koma neinum á óvart. Það er furðulegt að skilaboðin í dag, frá ríkisstjórnarflokkunum þremur, eigi að vera að eldri borgarar, af öllum hópum, eigi ekki að fá sömu hækkun og aðrir hópar samkvæmt lífskjarasamningunum. Eldri borgarar eru 45.000 manns í þessu landi. Ég þekki mitt heimafólk. Ég veit að hver einasti stjórnarþingmaður mun mæta á fund eldri borgara í aðdraganda næstu kosninga og lofa að gera allt fyrir þá. Mér finnst bara mikilvægt að eldri borgarar og öryrkjar, og þeir hópar sem verið er að hlunnfara aftur og aftur, muni hvernig þið farið með ykkar tækifæri í þessum sal þegar tillögurnar liggja fyrir framan ykkur. Þessar tillögur eru ekki á þeim skala að neitt fari á hliðina. Þetta er bara hið rétta að gera og (Forseti hringir.) þess vegna eru þetta enn og aftur nöturleg skilaboð sem berast úr þessum sal.

(Forseti (SJS): Forseti minnir á að það á að ávarpa forseta, ekki þingmenn persónulega.)