151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:46]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp og geri grein fyrir því að ég styð þessa breytingartillögu. Ég vil segja það líka að núverandi ríkisstjórn hefur farið í aðgerðir á þessu kjörtímabili í þágu aldraðra líkt og annarra hópa. Við fórum strax af stað í það að kortleggja hvernig væri best hægt að koma til móts við þann hóp aldraðra sem hefur lægstu tekjurnar. Það er frumvarp sem hefur verið samþykkt hér á þinginu. Einnig var gert samkomulag við Landssamband eldri borgara um að skoða í framhaldinu þá hópa sem væru þar fyrir ofan, þá allra lægstu hópana. Sá starfshópur er að störfum. Hann skoðar ekki eingöngu kjör heldur einnig félagslegar aðstæður og fleiri þætti. Tillagna hópsins er að vænta í upphafi nýs árs. Vonandi getur það leitt til aðgerða sem gripið verður til í framhaldinu. Stefnan er sú.

Síðan vil ég líka segja að við höfum ráðist í umfangsmiklar aðgerðir sem lúta að félagslegri stöðu aldraðra, bæði í fjáraukum á yfirstandandi ári og í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. Það snertir einmitt aldraða sem eru í erfiðri stöðu, glíma við einmanaleika o.s.frv. Í það eru lagðar talsvert háar fjárhæðir sem munu koma sér vel fyrir þann hóp á nýju ári.