151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

tollar á landbúnaðarvörur.

[15:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er ekkert að velja leið hafta eða þrenginga eða að berjast gegn neytendum eða verslun eða bændum. Það er langur vegur frá. Þetta er ein af þeim aðgerðum sem lögð er til, ásamt beinum styrkjum til bænda, sem hv. þingmaður tók m.a. þátt í að afgreiða hér í síðustu viku. Þetta er því sambland ýmissa aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gripið til í þágu íslensks landbúnaðar. Flest ríki í okkar nágrenni eru að styðja sína framleiðslu og við skorumst ekkert undan merkjum í þeim efnum sömuleiðis. Ég get ekki fullyrt með neinum hætti í dag hvaða áhrif þetta kann að hafa á breytingar á matarverði til neytenda. Við sjáum það hins vegar að verð á kjöti er að lækka á heimsmarkaði, hefur lækkað um 14% ef ég man rétt á þessu ári. Með einhverjum hætti hlýtur það að skila sér til neytenda hér á landi því að innkaupsverðið á kjöti hlýtur að taka mið af því verði sem fæst á heimsmarkaði.

Ég ætla sömuleiðis að minna hv. þingmann á úttekt sem við létum vinna á þeim breytingum sem kynnu að eiga sér stað við þá breytingu sem gerð var á úthlutun tollkvótanna og tók gildi á þessu ári. Við sömdum við ASÍ um að fylgjast með verðþróun á markaði og sú skýrsla hefur verið kynnt og yfirfarin. Sömuleiðis vil ég minna hv. þingmann á þá umræðu sem átti sér stað þegar við vorum að breyta aðferð við úthlutun tollkvóta. Þá var kannski dálítið annað hljóð í strokknum hjá sumum þeirra sem eru að gagnrýna þær aðgerðir sem við erum að grípa til núna,(Forseti hringir.) fordæmalausar eins og við tönnlumst oft á. Málið er til meðferðar hjá nefndinni og ég vænti þess að við munum eiga góða og uppbyggjandi umræðu þegar það kemur þaðan.