151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

reglugerð um sjúkraþjálfun.

[15:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Í gjaldskrá fyrir sjúkraþjálfun frá 1. janúar 2019, samkvæmt reglugerð og rammasamningi um sjúkraþjálfun, kemur fram að Sjúkratryggingar greiða 90% af heildargjaldi gegn framvísun beiðni um sjúkraþjálfun. Veita má sjúkratryggðum sjúkraþjálfun án beiðni að hámarki í sex skipti á ári. Þá segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Heilbrigðisráðherra hefur framlengt reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjúkraþjálfara, sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, til 31. desember n.k. Sú breyting er þó gerð að nú er skilyrði fyrir endurgreiðslu SÍ að fyrir liggi skrifleg beiðni, tilvísun, frá lækni eða sjúkraþjálfara sem starfar á heilsugæslustöð.

Í eldri reglugerð var til staðar heimild SÍ fyrir greiðsluþátttöku í sex skiptum í meðferð þó svo að ekki lægi fyrir skrifleg beiðni. Sú heimild hefur nú verið felld út hjá þeim sjúkraþjálfurum sem ekki starfa samkvæmt samningi við stofnunina.“

Einstaklingar sem veikjast alvarlega af Covid-19 eru í aukinni hættu á einkennum þunglyndis, áfallastreitu og öðrum líkamlegum einkennum í kjölfar veirunnar. Þá hafa þeir sem verða fyrir smá tognun getað fengið sjúkraþjálfun án læknisbeiðni og farið beint og milliliðalaust í meðferð hjá sjúkraþjálfurum. Nú verða þeir að hafa samband við lækni og bíða eftir tíma hjá honum, jafnvel svo vikum skiptir, til að fara í sjúkraþjálfun. Er þetta ekki að henda krónunni og spara aurinn, hæstv. heilbrigðisráðherra, þar sem tíminn skiptir máli? Því lengur sem beðið er eftir nauðsynlegri sjúkraþjálfun, því lengri sjúkraþjálfun þarf viðkomandi. Meðferð verður dýrari og vinnutapið meira ásamt auknum sársauka og jafnvel stóraukinni lyfjatöku. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvers vegna í ósköpunum er hún að breyta þessari reglugerð?