151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

reglugerð um sjúkraþjálfun.

[15:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, en ég get ekki verið sammála henni vegna þess að ég skil ekki þessa breytingu. Þessi breyting er engum til góða, hvorki í heilbrigðiskerfinu né þeim sem þurfa á þessari þjónustu að halda. Ég tékkaði á því, ég ætlaði að fara í sjúkraþjálfun í dag og ætlaði að fara til heimilislæknisins míns og panta tíma. Þá var sagt: Nei, þú færð ekki tíma. Þú verður að panta eftir viku. Og þá fer maður í röð til að panta eftir viku. Maður má þakka fyrir að komast inn. Þannig að viðkomandi sem er með smávægilega tognun fær ekki tíma og getur þar af leiðandi ekki farið beint í sjúkraþjálfun, sem er langþægilegasta og ódýrasta formið. Hann þarf kannski tvo, þrjá tíma. En ef það á að láta þennan einstakling bíða í mánuð eða lengur þá þarf hann miklu fleiri tíma. Þá er hann jafnvel kominn í það að þurfa verkjalyf og jafnvel fara inn í heilbrigðiskerfið. Það hlýtur að vera margfalt dýrara. Þess vegna spyr ég: Ætlar hún virkilega að henda krónunni og spara aurinn með þessu, vegna þess að það er ekkert annað í gangi hér?