151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

20. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Líkt og kemur fram í nefndarálitinu og kemur einnig fram í skýrslu sem starfshópur sem vann þetta frumvarp gerði þá eru 15 ára unglingar með nægan þroska og gera sér mjög vel grein fyrir því hvað það þýðir að fara og breyta skráningu kyns síns og jafnvel nafni hjá þjóðskrá þannig að ég hef ekki áhyggjur af því að ungmenni fari út í þetta nema að gríðarlega vel íhuguðu máli. Við vitum auðvitað aldrei hvað lífið ber í skauti sér og þess vegna tel ég mikilvægt að þeim standi sá möguleiki til boða að geta breytt skráningu sinni aftur og við erum jú hér einungis að tala um breytingu á skráningu. Hér er ekki um neitt að ræða sem er óafturkræft heldur er þetta einungis breyting á nafni. En vegna þess að ungmenni fara í svona breytingar að ígrunduðu máli þá tel ég ekki neinar ástæður til að hafa áhyggjur af því að þetta muni trufla eða hafa mikil áhrif á skráningarkerfi skóla. Þetta uppfærist eins og önnur tölvukerfi og ég tel að samfélagið allt sé bara til í þær breytingar sem fylgja þessu frumvarpi og lagi sig eftir því þegar nöfnum er breytt eins og þarf.