151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[17:03]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði, ódæmigerð kyneinkenni. UNICEF á Íslandi sendi inn umsögn um málið og ég held að það hafi verið eini aðilinn sem benti á að það ætti að gæta jafnræðis barna og samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á að tryggja að öll börn séu jöfn, en því miður sé það ekki gert í þessu frumvarpi. Það hefði verið mjög einfalt og rétt að gera það fyrst við erum á annað borð að tryggja börnum þennan rétt, sem ég er algjörlega sammála. Þau eiga þennan rétt. En einhverra hluta vegna þarf löggjafinn að setja sérstaklega inn í frumvarpið klásúlu í greinargerð um einstakar greinar frumvarpsins þar sem segir orðrétt um 1. gr., með leyfi forseta:

„Af skilgreiningunni og meginreglum frumvarpsins leiðir að svokallaðar forhúðaraðgerðir eða „umskurður drengja“, í tilvikum þar sem kyneinkenni eru dæmigerð, falla utan gildissviðs laga um kynrænt sjálfræði. Forhúðaraðgerðir eru nú gerðar hér á landi af heilsufarslegum ástæðum og er algengasta orsökin sú að forhúð er of þröng og veldur sársauka, þvaglátsvandamálum, sýkingum, vandamálum við kynlíf o.fl. Getur því reynst heilsufarslega nauðsynlegt að fjarlægja fremri hluta forhúðar eða opna án þess að fjarlægja. Þegar börn yngri en 16 ára eiga í hlut falla slíkar aðgerðir undir 4. gr. frumvarpsins, enda teljast kyneinkenni í slíkum tilvikum ódæmigerð. Aðgerðirnar eru heimilar með þeim skilyrðum sem 4. gr. frumvarpsins setur, þ.e. með samþykki barns eða, ef barn er ófært um að veita samþykki, þegar heilsufarslegar ástæður liggja að baki, og skal þá fylgja þeirri málsmeðferð sem þar er mælt fyrir um. Forhúðaraðgerðir í tilvikum þar sem forhúð er dæmigerð og þar sem slíkar aðgerðir kunna að vera gerðar eða fyrirhugaðar af trúarlegum eða menningarlegum ástæðum falla utan gildissviðs frumvarpsins og hafa ákvæði frumvarpsins því engin áhrif á það hvort slíkar aðgerðir eru gerðar eða heimilar.“

Ég tel að með þessu sé hreinlega verið að segja: Það má gera svona aðgerðir á ungum drengjum, sama á hvaða aldri þeir eru, af trúarlegum eða menningarlegum ástæðum. Það er engin önnur skýring á því að hafa þessa klausu þarna inni og nota ekki tækifærið til að setja það í lög líka að það megi ekki þannig að öll börn séu undir sama hatti. Við erum búin að taka á þessu vandamáli með stúlkur sem betur fer. Þar er, eins og við vitum, mjög alvarlegt vandamál í gangi í heiminum og þarf að taka virkilega vel á því og er verið að gera. Þar höfum við sýnt gott fordæmi en einhverra hluta vegna erum við búin að ákveða að þetta sé í lagi með drengi.

Það segir líka í 4. gr. frumvarpsins að til varanlegra breytinga samkvæmt 1. og 2. málslið hennar teljast m.a. skurðaðgerðir. Þarna er um skurðaðgerðir að ræða, gjörsamlega óþarfar skurðaðgerðir, sem eru gerðar af trúarlegum eða menningarlegum ástæðum.

Ég spyr fyrir mitt leyti: Hvers vegna í ósköpunum ætlum við enn einu sinni, þegar við höfum þetta góða tækifæri, ekki að taka þetta úr umferð í okkar lagabálki og ganga frá því í eitt skipti fyrir öll að þetta sé bannað? Hér segir líka að aðgerðir séu í lagi í ákveðnum tilgangi, ef hann er læknisfræðilegur, en svo leyfum við líka aðgerðir og segjum að þær séu í lagi af því að einhver trú segir að það eigi að gera það eða af einhverjum öðrum annarlegum ástæðum. Við verðum að gæta jafnræðis. Við höfum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. UNICEF á Íslandi bendir á þetta. Ég veit að það eru bæði heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem eru sammála mér í því að það sé eiginlega óskiljanlegt að við skulum ekki vera búin að taka á þessu vandamáli. Það er líka stórfurðulegt að við skulum ekki hafa nýtt tækifærið til þess núna, fyrst við erum á annað borð að semja vandað frumvarp um að gæta að rétti barna sem einhverra hluta vegna þurfa þann rétt að ekki séu gerðar stóraðgerðir á þeirra líkama nema það sé lífsnauðsynlegt og ef ekki sé um að ræða lífsnauðsynlegar aðgerðir með samþykki foreldra og lífsnauðsynlegar aðgerðir sem þarf að gera strax sé beðið með það þangað til barnið getur veitt samþykki. Þetta á auðvitað að gilda í öllum svona málum. Við eigum ekki að taka eitthvert eitt atriði út úr eins og er gert í frumvarpinu þar sem við setjum hreinlega inn texta um að trúarlegar og menningarlegar ástæður falli utan gildissviðs þessa máls. Það er furðulegt fyrirbrigði.

Ég vona heitt og innilega að málið fari aftur til allsherjar- og menntamálanefndar og þar verði tekið á þessu atriði. Það þarf að gera eitthvað í þessu og það er okkur til skammar að við skulum láta þetta hanga í lausu lofti enn eina ferðina og við skulum ekki geta klárað það. Hér var kjörið tækifæri til að taka þennan ljóta blett út og setja gott fordæmi fyrir heiminn um að við líðum ekki inngrip í líkama barna út af einhverjum trúarlegum eða menningarlegum ástæðum. Við eigum að vera orðin þróaðri en það. Við eigum að útiloka allt ofbeldi sem er beitt, sama hver birtingarmynd þess er, í nafni trúar.