151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

skráning einstaklinga.

207. mál
[20:51]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt nú nefndarálit með breytingartillögu frá allsherjar- og menntamálanefnd. Nefndin fékk eina umsögn frá Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði, og svo fékk nefndin, ég ætla ekki að lesa það upp, það kemur fram í nefndaráliti, nokkra einstaklinga og forsvarsmenn stofnana á fundi til sín til að ræða málið enn frekar.

Tilurð málsins er sú að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið samdi frumvarpið að beiðni og í samvinnu við Þjóðskrá Íslands. Í greinargerð frumvarpsins er tilurð málsins rakin en þar kemur m.a. fram að tiltölulega skammt sé frá því að ný heildarlög um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019, tóku gildi en við gildistöku laganna kom í ljós að láðst hafði að setja lagastoð undir skráningu andvana fæddra barna. Þá hefur Þjóðskrá Íslands þurft að forgangsraða verkefnum við uppfærslu á þjóðskrá þar sem ýmis ný löggjöf hefur kallað á slíkar breytingar. Því hefur þeim breytingum á þjóðskrá, sem lög um skráningu einstaklinga gera ráð fyrir, seinkað.

Fram kemur í mati á áhrifum frumvarpsins að það hafi ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs og að það muni veita atvinnulífinu og opinberum stofnunum svigrúm til að laga sig að breytingum sem fyrirhugaðar eru á miðlun kennitalna annars vegar og aðgreiningu kerfiskennitalna og hefðbundinna kennitalna hins vegar. Þá mun frumvarpið auðvelda stjórnvöldum að halda utan um fjölda barna sem látast þegar komið er fram yfir 22. viku meðgöngu og réttindi foreldra í því samhengi. Það er í stuttu máli það sem kemur fram í frumvarpinu sjálfu.

Virðulegi forseti. Svo ég snúi mér að nefndarálitinu sjálfu þá var nefndinni bent á, í framhaldi af umfjöllun um frumvarpið eins og það kemur frá ráðuneytinu, að æskilegt væri að gefa einnig út kerfiskennitölu þegar um er að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu, þar sem foreldrar eigi jafnframt rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks, samanber lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.

Við meðferð málsins kom fram að tíðkast hefur að skrá börn sem fæðast andvana eftir 22. viku meðgöngu í utangarðsskrá, sem nú heitir kennitölukerfisskrá, þar sem nauðsynlegt væri að skrá þau börn með kennitölu fyrir fæðingarskrá embættis landlæknis. Slík skráning tekur mið af alþjóðlegum skilgreiningum. Hins vegar hafa stofnanir hins opinbera ekki kallað eftir auðkennum þegar um er að ræða fósturlát eftir 18. viku meðgöngu og ekki tíðkast að tilkynna Þjóðskrá Íslands um slíkt. Nefndarmönnum þótti nauðsynlegt að skoða þetta atriði enn frekar og sendu erindi til Gleym mér ei sem er styrktarfélag foreldra sem misst hafa börn eða fóstur. Félagið tók undir ábendingu Vinnumálastofnunar – Fæðingarorlofssjóðs og taldi mikilvægt að Þjóðskrá Íslands yrði heimilt að gefa út kerfiskennitölur við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu líkt og lagt er til vegna barna sem fæðast andvana eftir 22. viku meðgöngu. Í báðum tilvikum öðlast foreldrar rétt til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks og fara þeir því í gegnum sama ferlið við umsókn á þeim réttindum. Þá sé gert ráð fyrir að útgáfa kerfiskennitalna muni auðvelda foreldrum að sækja þessi réttindi en í dag þurfa foreldrar að sækja vottorð frá Landspítalanum vegna þess. Þarna erum við að horfa til samhengis og samræmis við önnur gildandi lög, að þetta kallist á.

Nefndin hafði skilning á því að útgáfa kerfiskennitalna gæti falið í sér ákveðna viðurkenningu fyrir þá foreldra sem standa í þessum sporum og að aðrar ástæður en þörf kerfisins réttlæti að gefnar verði út kerfiskennitölur þegar um er að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu. Ég ætla nú ekki að lesa þetta allt, en ég vil samt taka fram að í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Nefndin hvetur því samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið í samráði við félagsmálaráðuneytið til að taka þetta atriði til nánari skoðunar og í víðara samhengi og hvort tilefni sé til að sama verklag gildi í báðum tilvikum sem og hvort útgáfa kerfiskennitalna verði til að auðvelda foreldrum að sækja þau réttindi sem þeim eru veitt samkvæmt lögum um foreldra- og fæðingarorlof.“

Þetta er mjög mikilvægt atriði en ég ætla ekki að hafa þetta lengra, frú forseti. Lagt er til að gildistaka ákvæðisins verði óbreytt og það taki gildi 1. janúar 2021 og í breytingartillögunni eru minni háttar orðalagsbreytingar, má segja.

Undir nefndarálitið skrifa sú sem hér stendur, Páll Magnússon, formaður nefndarinnar, Guðmundur Andri Thorsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.