151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

skráning einstaklinga.

207. mál
[20:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þetta er nú bara stutt fyrirspurn og ég vil taka það fram fyrst að ég fagna þessu máli. En mig langar að fá álit hv. þingmanns á máli sem tengist þessu. Nú kom hv. þingmaður inn á að þetta lúti að því að foreldrar andvana barna eigi rétt á fæðingarorlofi. Það er bara hið besta mál. En nú er það svo að móðir sem gefur barn sitt til ættleiðingar á fæðingardeildinni á ekki rétt á fæðingarorlofi. Svo að ég endurtaki þetta fyrir hv. þingmann: Móðir sem gefur barn sitt til ættleiðingar á fæðingardeildinni á ekki rétt á fæðingarorlofi. Er ekki nauðsynlegt að breyta lögunum þannig að þeir foreldrar, móðirin í þessu tilfelli, eigi rétt á að fá einn, tvo, þrjá mánuði í fæðingarorlof eins og nefnt er í þessu tilfelli með andvana fædd börn o.s.frv.? Það fylgir því náttúrlega heilmikið álag fyrir viðkomandi konu að gefa barn sitt og hún þarf hugsanlega jafnvel að leita sér sálfræðiaðstoðar. Þetta er álag, líkamlegt og andlegt. Er ekki eðlilegt að viðkomandi ætti þá rétt á fæðingarorlofi með sama hætti og flestallir aðrir?