151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

skattar og gjöld.

314. mál
[22:08]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Frú forseti. Mig langar að ræða aðeins betur þann hluta breytingartillagna meiri hlutans sem ég fór yfir hér í andsvörum við hv. þm. Óla Björn Kárason. Þar náði ég ekki að koma tölunum nógu skýrt út úr mér þannig að vel skildist, en ég næ því vonandi núna fyrst ég hef aðeins drýgri tíma. Hv. þingmaður sagði að breytingartillagan, sem snýr að því að ívilna bílaleigum til að kaupa vistvæna bíla, væri stórt skref í því að gera ökutækjaleigunum íslensku kleift að taka af fullum þunga þátt í þeim orkuskiptum sem við værum öll sammála um að við þyrftum að fara í gegnum.

Það er kannski rétt að byrja á því að segja að ég er hjartanlega sammála því að við þurfum að fara í gegnum orkuskiptin og ég held að þegar kemur að orkuskiptum í samgöngum á landi skipti bílaleigur höfuðmáli þar sem bílaleigubílar eru stór hluti, jafnvel stærstur, af endursölumarkaði. Hins vegar er ég ekki viss um að sú breyting sem meiri hlutinn leggur til sé endilega það skref sem helst er líklegt til að gera ökutækjaleigum kleift að taka af fullum þunga þátt í orkuskiptunum.

Það er rétt að nefna að kerfið sem er í gildi utan um orkuskipti er orðið alveg rosalega flókið. Það er saumað saman úr ýmsum bútum og er farið að vanta heildstæða nálgun á það hvernig við högum gjaldtöku af ökutækjum til þess að ná fram öllum þeim markmiðum sem búið er að troða hingað og þangað inn í ólík lög. Það endurspeglast á vissan hátt í breytingartillögunni sem nær yfir rúma síðu og er með lengri lagagreinum sem við höfum til umfjöllunar hér á þingi.

Mig langar að nefna þrjú atriði sérstaklega. Í fyrsta lagi er lagt til að lækka skráða losun koltvísýrings ökutækja sem undir ákvæðið falla um 30% áður en til álagningar vörugjalds kemur vegna ökutækja sem ætluð eru til útleigu hjá ökutækjaleigum. Sem sagt: Bíll kemur til landsins. Hann er með skráða losun og fær 30% afslátt af þeirri losun áður en reiknað er út hvar hann passar inn í gjaldtökumódelið okkar. Ef við horfum á þetta úr hinni áttinni, ef við skoðum 3. gr. laga um vörugjöld, þar sem gjaldleysismörkin eru dregin við losun upp á 90 g af koltvísýringi á hvern ekinn kílómetra, þýðir það að 90 g fyrir þessa tilteknu bíla fara upp í 128 g, 128 g losun með þessum 30% afslætti fer undir 90 g mörkin. Þar með myndi bílaleigubíll með 128 g losun sleppa algerlega við vörugjöld.

Þetta dregur óhjákvæmilega úr þeim hagræna hvata sem þessi mörk eiga að þjóna. Þau eiga að hvetja fólk og fyrirtæki til að kaupa ökutæki sem falla undir 90 g mörkin vegna þess að þau verða ódýrari. Með þessu eru mörkin færð upp í 128 g sem er 42% hækkun. 30% afsláttur þýðir hinum megin í reikningsjöfnunni 42% hækkun á vörugjaldaleysismörkunum. Það er rosalega mikið á sama tíma og ríkisstjórnin er að boða aukinn metnað í loftslagsmálum. Það er rosalega mikið þegar þetta á að vera stórt skref til að gera bílaleigum kleift að taka af fullum þunga þátt í orkuskiptum. Hins vegar skal þessi niðurfelling á vörugjaldi ekki vera hærri en 400.000 kr. á hvern bíl en fyrir allt að 85% af þeim bílum sem bílaleigurnar kaupa árið 2021, og 75% árið 2022. Með þessu á að hvetja bílaleigurnar til að fjárfesta í vistvænum ökutækjum fyrir hin 15% árið 2021 og 25% árið 2022 og hér fer kerfið enn að flækjast vegna þess að þessi grein, sem kemur inn í lög um vörugjöld, og afslátturinn sem fer til bensínbílanna af vörugjöldum, vísar í þessu tilviki yfir í lög um virðisaukaskatt og styðst þar við skilgreiningu á vistvænum ökutækjum í 24. ákvæði til bráðabirgða í lögum um virðisaukaskatt.

Í því ákvæði fá vistvænu bílarnir niðurgreiðslu upp á 960.000 kr. hver bíll ef um er að ræða tengiltvinnbíl eða 1.560.000 kr. fyrir hvern bíl ef um er að ræða rafmagns- og vetnisbíl á næsta ári. Þetta er hærri afsláttur á hvern bíl en vegna þess að þessir bílar eiga ekki að vera nema 15 eða 25% af öllum fjöldanum sem bílaleigurnar kaupa — ef við tökum þessa tvo afslætti í vörugjöldunum og virðisaukaskattinum þá fer hærri upphæð úr ríkiskassanum, ef þessi afsláttur er fullnýttur, í mengandi bílana.

Hér nefndi hv. þm. Óli Björn Kárason út í loftið töluna 5.000 bíla sem gæti vel orðið raunin á næsta ári. Það voru 5.000 bílar sem bílaleigurnar keyptu árið 2019, sem var samdráttarár hjá þeim. Árið áður voru þeir 8.000 en prófum að reikna miðað við 5.000 bíla. 15% vistvænir bílar af þessu eru 750 bílar. Ef þeir eru allir tengiltvinnbílar og fullnýta afsláttinn þá rennur 720 millj. kr. ívilnun til þeirra. Ef hin 85%, sem eru mengandi bensín- eða dísilbílar, fullnýta sinn afslátt upp á 400.000 kr. fá þeir 1,7 milljarða. Það eru 720 milljónir í tengiltvinnbíla og 1,7 milljarðar í bensínbíla. Þetta er mjög einkennileg leið til þess að gera bílaleigunum kleift að taka af fullum þunga þátt í orkuskiptum. Mér finnst það ekki ganga upp að niðurgreiða mengandi bílana um meiri hluta þess penings sem er til ráðstöfunar í því skyni að fá bílaleigurnar til að kaupa vistvæna bíla.

Dæmið verður aðeins skárra, ef miðað er við hærri niðurgreiðsluna, ef bílaleigurnar kaupa bara rafmagnsbíla en það nær samt ekki meiri hluta. Ef allir vistvænu bílarnir eru tengiltvinnbílar og allir fullnýta sinn afslátt á næsta ári fara 30% af ívilnunum til þeirra, 70% til mengandi bílanna. Ef hins vegar allir bílarnir eru rafmagnsbílar fara 40% af niðurgreiðslunni þangað, en 60% í mengandi bensín- og dísilbíla. Það er ekki svona sem orkuskipti eiga sér stað. Með þessum hætti er verið að styðja óendurnýjanlega orkugjafa með beinum ríkisstyrkjum meira en endurnýjanlega, sem hæstv. forsætisráðherra sagði í morgun að væri sem betur fer ekki raunin á Íslandi. En hér erum við með kerfi sem setur upp þannig niðurgreiðslu á ákveðnu sviði samfélagsins. Það er ekki staðurinn sem við eigum að vera á á árinu 2020. Það er ekki staðurinn sem ég hefði reiknað með að ríkisstjórnin væri á í sama andardrætti og hún tilkynnir aukinn metnað í loftslagsmálum gagnvart Sameinuðu þjóðunum.

Það sem lætur þetta orka enn meira tvímælis er að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar opnaði bráðabirgðaákvæði virðisaukaskattslaganna fyrir niðurgreiðslu á tengiltvinnbílum á næsta ári sem fyrir ári stóð til að láta fjara út nú um áramótin. Ef sú niðurgreiðsla hefði fengið að fjara út væri þetta strax mun skárra mál. Þá væri verið að ýta bílaleigunum í átt að bílum sem ganga eingöngu fyrir endurnýjanlegri orku. En með þessari opnun sem nefndin bjó til fyrir ári er verið að bjóða upp á það að vistvænu bílarnir, sem bílaleigurnar þurfa að kaupa til að fá niðurgreiðslu á mengandi bílunum, verði meira og minna tengiltvinnbílar. Tengiltvinnbílar eru til margra hluta nytsamlegir en kostir þeirra koma, held ég, einna síst fram í þeirri notkun sem fylgir ferðamönnum. Tengiltvinnbílar geta gengið á hreinni raforku í stuttum leggjum þangað til rafhlaðan tæmist. Eftir það fara þeir að eyða svipað eða jafnvel meira en bensínbílar. Ferðamennirnir sem eru að fara að leigja þessa bíla hjá bílaleigunum eru væntanlega fyrst og fremst að fara lengri leiðir. Ef þessi ívilnun, þessi niðurgreiðsla á bensínbílum, til að freista þess að bílaleigurnar kaupi græna bíla, verður aðallega notuð til að kaupa tengiltvinnbíla erum við væntanlega að niðurgreiða mengandi bensínbíla og tengiltvinnbíla sem verða notaðir þannig að þeir mengi mikið. Þá erum við ekki að tala um að taka af fullum þunga þátt í orkuskiptum heldur beinlínis að vinna gegn markmiðum orkuskiptanna á sama tíma og sagt er að metnaður ríkisstjórnarinnar sé aukinn.

Þess vegna líst mér bara ekkert á þessa tillögu. Ég held að það væri betra að leggja hana til hliðar, alla vega ekki að láta eins og hún sé græn og vistvæn og þjóni orkuskiptum. Ef fólk vill styrkja bílaleigurnar beint þá má alveg gera það. En við eigum ekki að klæða málið í grænan búning þegar hann er í raun grár og jafnvel kolsvartur ef illa fer. Þá mætti bara leggja þessa breytingartillögu til hliðar og koma frekar fram með einhverjar heildstæðar tillögur um það hvernig megi hvetja áfram tillögur um orkuskipti í samgöngum sem eru ekki unnar á handahlaupum undir þinglok í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis heldur með beinni aðkomu þeirra aðila sem best þekkja til; ég er t.d. að hugsa um verkefnisstjórn um orkuskipti — ég fékk hv. þingmann ekki til að svara mér um það hvort hún hefði komið að þessu — eða bara með þinglegri meðferð á þeirri tillögu. Segjum að 5.000 bílar fullnýti afsláttinn á næsta ári, þá erum við að tala um tillögu sem hleypur kannski á 2,5 milljörðum í ívilnanir til tengiltvinn- og bensínbíla. Fyrir 2,5 milljarða má gera ýmislegt. En það hefði kannski mátt ræða það líka við sérfræðinga og fá umsagnir um þennan þátt sem kemur hér fram sem breytingartillaga við 2. umr. í lokaviku þings fyrir jól. Og þá er ég hræddur um að verið sé að kasta til höndunum.