151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Eins og við var að búast var ekki fullkomin gleði með skrif mín á vísi.is í morgun um hálendisþjóðgarðsfrumvarpið. Nú þegar hafa komið vandlætingargreinar sem gera mér upp popúlisma og þekkingarleysi og horfa mikið til fram hjá gagnrýninni. En ef við skoðum forsendur gagnrýninnar sem hafa ekki bara komið frá mér heldur einnig frá þúsundum annarra, frá hópi sem hefur verið kallaður grenjandi minni hluti, þá snýr þetta allt saman öfugt. Markmiðið á að heita umhverfisvernd en 23. gr. frumvarpsins opnar mjög á rúma túlkun á skilgreiningu jaðars og opnar með því á hvaða virkjunaráform sem er, sem umhverfisráðherra þess tíma hugnast. Eitthvað segir mér að þetta ráðuneyti verði mun eftirsóttara af Sjálfstæðismönnum í framtíðinni ef frumvarpið fer í gegn. En í stað náttúruverndar koma takmarkanir á athafnafrelsi eins og birtast í 18. gr. sem virðast meira til þess fallnar að hlífa fólki við því að þola umgang annars fólks, sérstaklega ef það vill þannig til að það ferðast um öðruvísi en gangandi.

Ég átta mig ekki á því á hvaða hátt það á að duga betur en 17. gr. sem er fín. Þetta frumvarp er svo sem ekki til umræðu núna en mér þykir ljóst að samtalið á eftir að þroskast mikið yfir hátíðarnar. Ég bið fólk um að hlusta á gagnrýnina, hún er ekki úr lausu lofti gripin. Ég vil bara enda þetta stutta innlegg á því að fagna því að þetta faraldursár er senn á enda og það er von um betri tíð með komandi bóluefnum. Það er afurð merkilegs alþjóðlegs átaks í að uppræta og útrýma sjúkdómi sem var ekki einu sinni til fyrir rétt rúmu ári. Ég óska fólki bara gleðilegrar hátíðar og vonandi kemur næsta ár betur út.