151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það er heimilt að greiða uppbót á lífeyri almannatrygginga vegna umönnunarkostnaðar, lyfjakostnaðar, kaupa á heyrnartækjum, rafmagnskostnaðar, vegna notkunar á súrefnissíu, og húsaleigu sem fellur utan húsaleigubóta. Börn 18 ára og yngri eiga rétt á gleraugnaendurgreiðslum. Þriggja ára og yngri eiga rétt á endurgreiðslu tvisvar á ári, 4–8 ára eiga rétt á endurgreiðslu árlega. Þá eiga börn 9–17 ára rétt á endurgreiðslu annað hvert ár. Greiðslan er miðuð við styrkleika sjónglerja og er aðeins á bilinu 3.500–7.500 kr. á gler og fyrir sterkari gler, sjónskekkjugler, eru viðbótargreiðslur aðeins 500–1.500 kr. eftir styrkleika. Kostnaður foreldra við kaup á gleraugum getur verið 40.000–60.000 kr. Þarna munar fáránlega miklu á greiðslum og engin furða þótt þessar smánarlega lágu styrkupphæðir hafi staðið óbreyttar í hvað? Á annan tug ára. Þá er það furðulegt í þessu samhengi að heyrnartæki barna eru greidd að fullu úr ríkissjóði en sjóngleraugu ekki. Þetta er ekkert annað en gróf mismunun, óskiljanleg mismun á milli barna og skýtur virkilega skökku við út frá jafnræði. En þetta er ekki svo furðulegt ef skoðuð er stefna þessarar ríkisstjórnar og fyrri ríkisstjórna fjórflokksins sem komu þessu kerfi á. Stefnan er að þeir setja á styrki af góðmennsku sinni en styrkirnir eru aldrei látnir hækka á milli ára heldur hafðir óbreyttir, jafnvel í tugi ára þannig að þeir rýrna og skila ekki tilgangi sínum. Ríkissjóður græðir en börnin og fjölskyldur þeirra, sem þurfa á styrkjum að halda, tapa. Enn einu sinni eru vinnubrögð starfandi ríkisstjórnar í málefnum barna hér á Alþingi til háborinnar skammar. Er ekki kominn tími til að hætta fjárhagslegu ofbeldi í eitt skipti fyrir öll og hafa jólagjöfina í ár þá að hætta allri mismunun?