151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði.

21. mál
[14:17]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði. Þar er um að ræða að hreinsa út úr ýmsum lögum orð eins og karl, kona, barn, kvæntur maður og gift kona, faðerni og móðerni, móðir, kvenmaður, eiginkona, eiginmaður, sambúðarkona og sambúðarmaður. Í mörgum tilfellum er um tiltölulega saklausar breytingar að ræða að mínu mati, en í öðrum tilfellum hreint alls ekki. Sérstaklega þykir mér fara illa á því að taka út orðið móðir í nokkrum greinum hegningarlaga, orð sem er rótgróið í vitund landsmanna og er í flestum tilfellum í hegningarlögunum haft um þá manneskju sem elur barn, þá manneskju sem ber barn undir belti. Ég get hreinlega ekki séð hverju það skiptir í því sambandi hvaða skráning á við um þá manneskju eða hvernig kynfæri manneskjunnar líta út. Manneskjan er verðandi móðir ef hún ber barn undir belti og móðir þegar hún fæðir barn. Orðið móðir er fallegt og lýsandi íslenskt orð og við skulum ekki fórna því fyrir öfgar.