151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði.

21. mál
[14:22]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Ég velti fyrir mér þessari lagabreytingu sem er til breytingar á 192. gr. hegningarlaga sem leggur refsingu við því ef maður rangfærir sönnun fyrir faðerni eða móðerni barns, t.d. með rangri skýrslu fyrir yfirvaldi. Þarna er verið að fella brott orðin faðerni og móðerni. Upphaflega átti að setja inn orðin foreldrastöðu manneskju en nú er einungis talað um foreldrastöðu. Í báðum tilvikum virðist mér hér vera um alls ófullnægjandi breytingu að ræða. Orðið foreldrastaða kemur í mínum huga hreint ekki í stað orðanna móðerni eða faðerni. Eins og stundum áður er hér er verið að ganga allt of langt og má vel tala um öfgar í því sambandi. Ákvæðið leggur refsingu við því að leggja stein í götu yfirvalda þegar þau grennslast fyrir um faðerni eða móðerni barns og þar hefur verið átt við líffræðilegan föður eða móður. Ef átt er við eitthvað annað en það, þá erum við refsiréttarlega komin út í einhvers konar móa og ekki er verið að tala um að sanna blóðtengsl móður eða föður við barnið.