151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

viðspyrnustyrkir.

334. mál
[15:21]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fagna því að við skulum vera að ná víðtækri samstöðu um þetta mikilvæga mál sem viðspyrnustyrkirnir eru. Þeir eru hluti af þeim varnaraðgerðum sem ríkisstjórnin hefur gripið til til að gefa íslenskum fyrirtækjum, íslensku atvinnulífi möguleika á því að sigla í gegnum það ástand og þær hörmungar sem við er að glíma. Við getum deilt um hversu langt eigi að ganga en ég er sannfærður um að þegar við horfum til baka, þegar við horfum til stuðningslánanna, viðspyrnustyrkjanna, tekjufallsstyrkjanna o.s.frv., verði niðurstaðan sú að ríkisstjórnin greip til ráðstafana sem voru áhrifaríkar og réðu úrslitum um það að íslenskt atvinnulíf verður í stakk búið til að grípa þau tækifæri sem bjóðast í framtíðinni. Þess vegna samþykkjum við þetta frumvarp hér í dag.