151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

viðspyrnustyrkir.

334. mál
[15:33]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þessi breytingartillaga gengur út á að koma til móts við það sjónarmið sem hefur komið fram, einkum frá smærri aðilum í ferðaþjónustu sem hafa myndað með sér óformleg samtök, og gengur út á að hægt sé að velja þegar sótt er um styrk hvort styrkupphæðin miðist við stöðugildi í viðmiðunarmánuði eða hlutfall rekstrarkostnaðar í þeim mánuði sem umsóknin er send inn. Það er þannig sérstaklega hjá þessum smærri fyrirtækjum að mikið er um undirverktaka þannig að launamenn eru færri. Þetta er einfaldlega gert til þess að veita mönnum val þannig að ekki sé gerður greinarmunur á því hvernig starfsmannahaldi er háttað í viðkomandi fyrirtæki. Þetta mun ekki endilega auka útgjöld, þetta eykur valfrelsið og gerir það að verkum að fleiri fyrirtæki, og einkum þau sem ég nefndi, munu geta notið þessa stuðnings.