151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

viðspyrnustyrkir.

334. mál
[15:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nú hefur það gerst enn einu sinni að stjórnarliðar fella allar góðu tillögur minni hlutans. En hérna er tillaga sem allir hljóta að geta samþykkt. Hún er um að hafi fyrirtæki fengið viðspyrnustyrk en verður síðan á árinu 2021 uppvíst að launaþjófnaði eða öðrum svikum á vinnumarkaði þurfi það að skila styrknum til baka tafarlaust. Hafi fyrirtækið ekki gert það innan mánaðar leggjast vextir á upphæðina. Er það ekki svo, herra forseti, að við erum öll hér inni áhugamenn um það að hér þróist heilbrigður vinnumarkaður og við upprætum launaþjófnað og svik á vinnumarkaði? Er það virkilega svo að stjórnarliðar segja bara: (Forseti hringir.) Nei, við viljum ekki taka á þeim í gegnum þetta sem stunda launaþjófnað og svik á vinnumarkaði?