151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[16:18]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, nr. 98/2004.

Ég ætlaði aðeins að koma hingað upp og taka undir með þeim sem hafa talað á undan mér í stórum dráttum um það hvaða augum þeir líta þetta mál. Ég og hv. þm. Ólafur Ísleifsson erum á þessu máli með fyrirvara og fyrirvarinn er í raun og veru sá að ekki sé gengið svo rösklega til verks að þetta virki þannig að þetta endist. Eins og sagan segir okkur og hefur verið minnst á hér áður var farið í svona aðgerðir árið 2015 og það í raun og veru núllaðist út þegar á móti komu hækkanir á öðrum þáttum, eins og t.d. núna, en það hefur komið fram hér á undan að nú er í kortunum, bara strax upp úr áramótum, hækkun á gjaldskrá Landsnets til dreifiveitna um tæp 10%. Þar kemur þá strax hækkun á móti sem deyfir þessa jöfnun fyrir þá sem fá hana. Og ég tek undir með hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni sem talar af reynslu, hafandi verið í atvinnuveganefnd í mörg ár, ekki reyndar svo lengi sem elstu menn muna, en þó nokkur ár. (ÁsF: Næstum því.) Næstum því, segir hv. þingmaður og hann var einmitt í nefndinni þegar farið var í þessar breytingar 2015 og leggur til, og ég tek undir með honum, að það verði skoðað að fara í eina einfalda gjaldskrá þar sem jöfnuður ríkir.

Hv. þm. Guðjón Brjánsson líkti þessu áðan við það eins og var hér í gamla daga með símann þegar landsmenn þurftu að borga meira fyrir símtölin sín af því að þeir bjuggu lengra frá höfuðborgarsvæðinu. Það er því hægt að setja upp alls konar líkingar sem maður getur tekið undir.

Mig langaði til að vitna í eina umsögn sem mér finnst ansi góð. Það bárust margar góðar umsagnir og flestar jákvæðar hvað það varðar að taka þetta skref og ég tek heils hugar undir það. Þessi umsögn er frá Samtökum iðnaðarins og þar kemur m.a. fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar, að gefnu tilefni, vísa samtökin hér til athugasemda sem fram koma í minnisblaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, dags. 7. desember sl., og birt er í málaskrá þessa máls. Þar er gerð grein fyrir kostum og göllum tiltekinna aðferða til að jafna kostnað á milli dreifbýlis og þéttbýlis, þar sem nefndar eru til að mynda leiðir sem fela í sér hækkun á gjaldskrá í þéttbýli og mest hjá þeim sem nota mikla orku og eru nefnd þar í dæmaskyni starfsemi garðyrkjubænda, gagnavera, stálsmiðja, bakara o.fl. Hvað slík áform varðar almennt leggjast SI alfarið á móti auknum álögum á atvinnulíf þar með taldar allar breytingar á þá vegu að hækka til muna raforkukostnað á notendur. Þess í stað hvetja samtökin stjórnvöld til að lækka kostnað án þess að annarri starfsemi á þéttbýlum svæðum verði gert að niðurgreiða þá starfsemi.“

Þetta er einmitt það sem fyrirvari okkar hv. þm. Ólafs Ísleifssonar er við, að þetta sé ekki góð aðferð til þess að jafna kostnað. Og svo ég haldi aðeins áfram:

„Að gefnu tilefni, og í framhaldi af framanrituðu, óska SI eftir að koma á framfæri ábendingum til atvinnuveganefndar hvað varðar enn frekari hvata er varða hagræði á sviði gjaldtöku fyrir raforku og atvinnuuppbyggingu, þar með talin atvinnustarfsemi jafnt utan sem innan þéttbýlis. Benda samtökin á að samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003, eru notendahópar raforku tvenns konar. Annars vegar almennir notendur, þ.e. heimili og fyrirtæki sem ekki teljast til stórnotenda og þar með talinn sá notendahópur sem m.a. jöfnun á raforku tekur til, og hins vegar stórnotendur. Á grundvelli þessarar tvískiptingar er fyrirtækjum, sem nota ákveðið magn raforku á hverjum stað, heimilt að njóta ákveðins hagræðis sem stórnotendur. Notendahópur raforku hefur hins vegar tekið breytingum undanfarinn áratug eða frá þeim tíma sem raforkulög voru sett árið 2003. Í núverandi fyrirkomulagi er lítið hagræði fyrir orkusækinn iðnað að hefja starfsemi sem ekki fellur undir stórnotendahugtak raforkulaga og hagræði sem þeim er veitt með þeim lögum. Hins vegar telja samtökin mikilvægt að stuðla að hvata fyrir ýmsa starfsemi, sem notar ákveðið magn raforku án þess að ná lægra þrepi stórnotendahugtaks raforkulaga, til að stuðla þannig að atvinnuuppbyggingu óháð þeim svæðum sem slík starfsemi er starfrækt. Slíkt myndi einnig veita raforkufyrirtækjum færi á að vaxa og dafna samhliða uppbyggingu viðskiptavina sinna. Í því skyni hafa samtökin talað fyrir því að regluverk raforkumála taki þannig tillit til svokallaðra millistórra notenda sem muni njóta þess í kjörum að nota mikla orku og um leið stuðla að atvinnuuppbyggingu hér á landi. Skora samtökin því á atvinnuveganefnd að taka slíkt fyrirkomulag til frekari skoðunar, sem sagt að teknu tilliti til þess með hvaða hætti stórnotendur, að breyttu breytanda, eru skilgreindir í raforkulögum og útfærsla á því hugtaki í lögunum með hliðsjón af millistórum notendum.“

Þarna eru samtökin í raun og veru að hvetja til þess að gætt sé sanngirni í raforkukostnaði þannig að það hvetji þá sem þurfa að nota rafmagn, sem eru flestir en misjafnlega mikið þótt allir þurfi að nota rafmagn, og minnast tvisvar sinnum á hvata. Að þessu sögðu ætla ég ekki að hafa mál mitt lengra. Eins og ég sagði í upphafi er þetta skref í rétta átt en ég hef áhyggjur af því að þetta muni enda eins og sagan hefur sýnt okkur þannig að við þurfum að finna einfaldari og betri útfærslu sem dugir.