151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[17:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs. Ég styð þetta mál heils hugar og tel það mjög til bóta. Það er löngu tímabært að við tökum og höldum svolítið utan um íþróttahreyfinguna vegna þess að við vitum hversu mikilvæg hún er. Stuðningurinn er sérstaklega mikilvægur fyrir minni félögin sem berjast mörg í bökkum og það yrði mikið áfall fyrir íþróttir í landinu ef þau gætu ekki sinnt störfum sínum, sérstaklega gagnvart börnum, vegna þess að forvarnastarf íþróttafélaga er gífurlegt. Þar af leiðandi er líka gott að vita að við erum að reyna að grípa sem flesta og ég vona heitt og innilega að þetta nái líka til litlu íþróttafélaganna sem þurfa virkilega á hjálp að halda og að þetta skili sér alla leið. En þegar svona stuðningur er veittur óttast maður alltaf að einhverjir sitji eftir.

Ég verð að segja að ég tek undir með hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur. Breytingarnar sem hún leggur fram eru ekki stórvægilegar en allar breytingar sem hjálpa í þessu eru til góða og ég tel að við ættum alveg að geta tekið þær til greina. Við hefðum getað gert það og komið þeim þannig fyrir að allir væru sáttir vegna þess að í sjálfu sér er engin andstaða við þetta mál heldur eingöngu spurningar um smávægilegar lagfæringar og búið er að gera góðar lagfæringar á þessum málum. Málið er á réttri leið.

Ég vil bara ítreka að ég vona heitt og innilega að breytingartillögurnar nái fram að ganga og þá held ég að málið sé í nokkuð góðri sátt. En svo þurfum við auðvitað að fylgjast með því hvernig þetta skilar sér til íþróttafélaganna og hvernig það allt virkar. En vonandi fáum við að vita það á næsta tímabili. Vonandi eru ekki margir sem detta á milli og fá ekki þá hjálp sem þeir þurfa nauðsynlega á að halda. En ég trúi því að stærsti hlutinn fái þá hjálp sem hann þarf á að halda.