jöfn staða og jafn réttur kynjanna.
Herra forseti. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, framsögumaður málsins, hefur gert ítarlega grein fyrir nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar í þessum tveimur málum sem hafa verið samhliða til umfjöllunar á okkar vettvangi. Ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara og ég vildi geta þess að sá fyrirvari lýtur ekki að samþykkt málsins eða þeim breytingartillögum sem fyrir liggja. En það eru ákveðin atriði sem ég vildi hins vegar gera fyrirvara við, alla vega þannig að ég flaggaði því að ég væri ekki alveg — ég segi ekki að ég sé ósáttur en ég er alla vega hugsi yfir ákveðnum atriðum í texta sem varða orðalag. Athugasemdir mínar varða því frekar orðalag en efnisatriði eða þær breytingartillögur sem legið hafa fyrir.
Það sem ég staldraði kannski hvað mest við voru vangaveltur varðandi 19. gr. frumvarpsins, um jafna stöðu og jafnan rétt, þar sem verið er að fjalla um mismunun í starfi við ráðningar, þ.e. mismunun á grundvelli kyns. Niðurstaða frumvarpshöfunda og síðan nefndarinnar er sú að gera ekki tillögu um efnislegar breytingar á núgildandi ákvæðum hvað þetta varðar. Þau atriði sem eru tekin inn í þetta frumvarp eru því efnislega samhljóða núgildandi lögum. Eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gat um er annars vegar um að ræða sönnunarreglu, þ.e. hver ber sönnunarbyrðina við tilteknar aðstæður, og hins vegar matsreglur sem fjalla um það hvernig meta beri hvort sá sem í raun og veru ræður í starf hafi gætt að sjónarmiðum um jafnrétti þegar ákvörðun var tekin. Það eru viðmiðanir sem kærunefnd á í raun að hafa til hliðsjónar þegar hún leggur mat á það hvort kæra á grundvelli mismununar í þessu sambandi á við rök að styðjast eða ekki.
Ástæðan fyrir því að þetta hefur fengið nokkra athygli eru m.a. athugasemdir sem hafa komið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar frá umboðsmanni Alþingis, fyrst frá settum umboðsmanni 2013, Róbert Spanó, ef ég man rétt, og síðan endurtekið. Síðast í sumar sendi umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, forsætisráðherra bréf af þessum sökum. Til að gera langa sögu stutta taldi umboðsmaður að kærunefnd jafnréttismála hefði farið út fyrir valdsvið sitt, ef svo má segja, í sambandi við mat á þeim þáttum sem hún þarf að skoða þegar verið er að meta hvort mismunun hafi verið fyrir hendi við ráðningar í störf.
Í umfjöllun nefndarinnar var bent á að Hæstiréttur hefur fjallað, a.m.k. einu sinni, um niðurstöður matsnefndar með þessum hætti, í dómi frá janúar 2015, ef ég man rétt, þar sem tiltekið mál var til umfjöllunar. Af því vilja sumir draga víðtækar ályktanir um það að Hæstiréttur hafi almennt lýst yfir stuðningi eða sé almennt sammála eða sáttur við aðferðafræði kærunefndarinnar. Ég er ekki alveg viss um að hægt sé að draga svo almennar ályktanir af hæstaréttardómnum frá 2015. Hann segir vissulega að í því tiltekna máli sem þá var til umfjöllunar hafi aðferðafræði kærunefndarinnar staðist. En eins og ég segi er ég kannski ekki tilbúinn til að skrifa upp á það að af því megi draga þá ályktun að aðferðafræði kærunefndarinnar almennt hafi fengið blessun frá Hæstarétti. Allsherjar- og menntamálanefnd var í sjálfu sér kannski ekkert í færum um að kveða upp úr um þetta, þ.e. allsherjar- og menntamálanefnd er kannski ekki í stöðu til þess að leggja endilega endanlegt mat á þá lögfræðilegu deilu sem þarna er fyrir hendi og kom fram annars vegar í sjónarmiðum gesta frá kærunefnd jafnréttismála og hins vegar frá umboðsmanni Alþingis. Allsherjar- og menntamálanefnd fjallar vissulega um þetta í texta í nefndaráliti en gerir engar breytingartillögur við frumvarpið og frumvarpið felur í sér að efnisreglur núgildandi laga standa áfram. Við getum því dregið þá ályktun að sá lögfræðilegi ágreiningur sem hefur verið fyrir hendi, hvað varðar túlkun þessara ákvæða, verði það áfram. Ég sé ekki að meðferð málsins hér í þinginu muni leiða til lykta þann ágreining um túlkun sem er fyrir hendi og það verður auðvitað hlutverk Hæstaréttar að kveða upp úr um það í framtíðinni hvort svo sé, hvort reglurnar séu að þessu leyti skýrar eða ekki.
En ég vildi bara draga það fram að við í allsherjar- og menntamálanefnd erum ekki að skera úr um í þessum málum og veljum þann kost að láta núgildandi reglur standa óbreyttar sem auðvitað þýðir að hafi ágreiningur verið fyrir hendi, sem mér sýnist vera, þá mun hann áfram verða fyrir hendi. Það er síðan hlutverk dómstóla að kveða upp úr um það hvernig beri að túlka þessi ákvæði. Þetta vildi ég nú segja, bara til að skýra fyrirvara minn.
Það er annað atriði sem ég ætlaði að nefna. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir nefndi í ræðu sinni varðandi það þegar úrskurðir kærunefndar eru bornir undir dómstóla að þá eigi kærunefndin aðild að því máli. Þá þurfi veitingarvaldshafi, ef við getum orðað það svo, sem ekki er sáttur við niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála að stefna bæði kærandanum og kærunefndinni. Þetta er nýbreytni og á vissan hátt á skjön við venjulegar reglur um aðild að dómsmálum. Ég er ekki ósáttur við þessa niðurstöðu en tek undir það sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði, að það er ástæða til þess að fylgjast með því hvernig þetta reynist í framkvæmd og eftir atvikum endurskoða ef tilefni er til. Það urðu auðvitað ákveðnar breytingar að þessu leyti þegar niðurstöður kærunefndar urðu bindandi úrskurðir með lagabreytingu 2008, ef ég man rétt. Fyrir þann tíma var aðeins um að ræða álit frá kærunefndinni. Þó að álitin hefðu auðvitað töluvert vægi voru þau ekki bindandi að lögum fyrir málsaðila. En breytingin sem átti sér stað 2008 fól í sér að niðurstöðurnar eru bindandi og hafa þannig réttaráhrif. Reynslan af því hefur að mínu mati verið bæði góð og slæm. Engu að síður stendur það eftir að þrátt fyrir að niðurstöðurnar séu bindandi þá geta aðilar borið ágreining sinn undir dómstóla í þessu frumvarpi. Og til að, bara svo að við tölum skýrt um þetta, kærandi standi ekki einn í dómsmálinu þá er kærunefndinni stefnt með vegna þess að auðvitað er líka verið að bera undir dómstóla hina lögfræðilegu niðurstöðu kærunefndarinnar. En í ljósi þess að þetta er óvenjulegt og með vissum hætti afbrigðilegt miðað við venjulegan rekstur dómsmála þá er ég sammála því að fylgst verði með framkvæmdinni, hvernig þetta reynist og hvort tilefni sé til að breyta.
Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti, en ítreka að þrátt fyrir að ég geri fyrirvara við orðalag í textanum þá felur það ekki í sér tillögur til breytinga eða athugasemdir við þær breytingartillögur sem fyrir liggja og eru byggðar á þessu nefndaráliti.