151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

jöfn staða og jafn réttur kynjanna.

14. mál
[11:41]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mér finnst að leiðarstefið í allri nálgun og umfjöllun okkar um þetta mál sé einfaldlega heiti málsins sjálfs. Við erum annars vegar að tala um jafnan rétt, formið, og hins vegar jafna stöðu sem í mínum huga lýtur að niðurstöðunni. Þegar við nálgumst málið með þeim gleraugum og horfum á það hver staða karla og kvenna er í samfélaginu er niðurstaðan sú að við höfum ekki náð jafnri stöðu karla og kvenna. Þess vegna er lagasetning eins og þessi mikilvæg til að verja stöðu og sækja fram, gera betur að því er varðar kynjajafnrétti.

Mér finnst almennt séð hafa tekist ágætlega til í þessu máli. Góð vinna fór fram í nefndinni. Við fengum marga góða gesti með innsýn í ólíkar hliðar og þætti jafnréttisbaráttunnar og yfirferðin var nokkuð yfirgripsmikil og góð. Staða Íslands hvað varðar jafnrétti kynjanna er góð og hún er góð samanborið við önnur ríki. En eins og ég nefndi strax í upphafi þá erum við einfaldlega ekki komin á þann stað að staða karla og kvenna sé hin sama í samfélaginu og þess vegna þurfum við að vera með löggjöf sem er til þess fallin að ná fram betri stöðu.

Það voru nokkur atriði við yfirferð málsins og við frumvarpið sjálft sem sátu aðeins í mér. Í fyrsta lagi, og það er þungamiðjan í því, er umfjöllun um aðferðafræði og málsmeðferð innan kærunefndar jafnréttismála. Kærunefndin er ákveðið verkfæri sem við beitum til að skera úr um það hvort rétt sé að verki staðið í tilteknum málum en gefur auðvitað um leið línuna og tóninn um það hvernig við nálgumst þessi mál og hvaða kröfur við gerum í þeim almennt.

Mér finnst mikilvægt að það kemur skýrt fram í nefndaráliti meiri hlutans að þrátt fyrir að ákveðnum sjónarmiðum hafi verið flaggað við meðferð þessa máls er löggjafinn alveg skýr um það að aðferðafræði kærunefndarinnar, sem byggir á lögum, verður ekki hnikað með þessu máli. Við erum að horfa fram á og við erum skýr um það í máli þessu að aðferðafræðin sé óbreytt og hún eigi að vera óbreytt varðandi það hvernig nefndin vinnur. Um tíma fannst mér textinn geta bent til þess að við værum að fara í aðra átt. Það hefði orðið til þess að ég hefði ekki getað stutt þetta mál. En með því að svo varð ekki, og við erum skýr um það að við ætlum að halda kúrsi, halda áfram, styð ég umfjöllun meiri hluta nefndarinnar þótt þetta hafi aðeins setið í mér í byrjun. Eftir að hafa hlustað á sérfræðinga forsætisráðuneytisins og eftir að hafa náð lendingu um það hvernig textinn í nefndaráliti okkar er hvað þetta varðar þá er ég sátt við niðurstöðuna.

Annað atriði sem ég set spurningarmerki við, en er ekki jafn veigamikill þáttur og aðferðafræði kærunefndarinnar, er að kærunefndinni skuli stefnt með þegar dómsmál er höfðað. Það blasir við að þetta er til komið vegna ákveðins dómsmáls. Ég hef skilið orð hæstv. forsætisráðherra þannig að þetta sé beint viðbragð við því dómsmáli sem menntamálaráðherra rekur nú. Það sé gert til að milda með einhverjum hætti það högg sem einstaklingur stendur frammi fyrir þegar sjálft ríkið stefnir honum fyrir dóm fyrir það eitt að hafa leitað síns réttar. Ég get skilið það viðbragð hæstv. forsætisráðherra í þessu tiltekna samhengi og myndi jafnvel leyfa mér að ganga svo langt að ég skilji þau viðbrögð hennar sem allt að því andstöðu við þetta mál þó að ég sé auðvitað bara að geta mér til um það. Í þessu felast hins vegar ákveðin hættumerki líka því að með því að kærunefndinni sé stefnt samhliða einstaklingi verður kannski auðveldara fyrir pólitíkina, fyrir stjórnvöld, að grípa til þess ráðs eða fara í þá vegferð að ætla ekki lengur að una úrskurðum heldur að fara með slík mál fyrir dóm. Það var auðvitað ástæða fyrir því á sínum tíma að þessir úrskurðir voru gerðir bindandi. Með því er verið að gefa þau skilaboð að við viljum að þessir úrskurðir hafi ákveðið vægi. Vitaskuld er það þannig að úrskurð nefndar má alltaf fara með fyrir dómstóla. Það er ekki atriði sem við ræðum, hvort svo eigi að vera, en það er alltaf pólitísk afstaða hverju sinni hvort menn ætli að beita því verkfæri. Mér finnst það blasa við sjálfri að aðstöðumunurinn í slíku dómsmáli sé ævintýralegur og að upplifun þeirrar manneskju sem stendur frammi fyrir dómsmáli við ríkið sjálft, þar sem ríkið stefnir einstaklingi fyrir dóm, sé högg og það högg er ekkert mildara þó að annar aðili standa henni við hlið. En það er kannski auðveldara fyrir stjórnmálin að ætla að teikna þetta upp með þessum hætti.

Svo ég rammi þetta inn þá held ég að í því máli sem er fyrir dómstólum í dag hefði það ekki gert upplifun þeirrar manneskju auðveldari eða léttari þótt kærunefndin stæði henni við hlið. En í ljósi aðstæðna get ég haft ákveðinn skilning á því að þetta hafi gerst á hinum pólitíska vettvangi. Ég sé sjálf ekki alveg tilganginn með því. Það er alltaf hægt að afla upplýsinga og gagna frá kærunefndinni, sé vilji til þess. Ég myndi fyrir mitt leyti styðja að þetta verði endurskoðað í bráð. Þetta er ekki alveg óþekkt verklag en þetta er hins vegar ekki almennur praxís og ég held að maður sjái það ef maður skoðar þetta t.d. í því samhengi að við stefnum ekki héraðsdómstól upp í Landsrétt þó að málum sé áfrýjað, þú tekur ekki dómarann með í leiðinni. Í ljósi aðstæðna skil ég hvað er verið að fara þó að mér finnist það vera óþarfi og ekki til þess fallið að bæta réttarstöðu eða upplifun þeirrar manneskju sem stendur frammi fyrir slíku. Í sjálfu sér finnst mér aukaatriði, t.d. hvað varðar það dómsmál sem rekið er í dag, hver niðurstaðan verður því að þetta er spurning um pólitík, að stjórnvöld uni úrskurði. Kærunefnd jafnréttismála er ekki óskeikul frekar en aðrar kærunefndir. Mér finnst lítill bragur á því að beita valdi sínu með þessum hætti.

Varðandi kærunefndina sjálfa þá er í mínum huga mikilvægt að meiri hlutinn er skýr um það að við ætlum áfram að beita sömu aðferðafræði sem sést auðvitað á því að ákvæðið sjálft er óbreytt, þar er engin efnisbreyting. Í nefndarálitinu er hnykkt á þessu alveg sérstaklega og í því felast að mínu mati afar mikilvæg pólitísk skilaboð og vitaskuld lagaleg að svar löggjafans að þessu leyti er skýrt: Við ætlum að halda áfram. Hér er engin sérstök breyting á ferðinni enda er í mínum huga ekkert í dómapraxís sem gefur til kynna að það sé einhver kerfislæg villa í því hvernig þessi mál hafi verið afgreidd í gegnum tíðina. Aftur, svo það sé sagt, er kærunefnd jafnréttismála ekki óskeikul frekar en aðrar. En hafi gagnrýnin verið sú að nefndin hafi gegnumgangandi verið að taka sér eitthvert vald eða stíga lengra en hún hefur mátt lögum samkvæmt þá er ekkert í dómum sem bendir til þess að dómstólar taki undir það.

Það var rætt um aðild þeirrar manneskju sem hlýtur starf í þessu samhengi. Þau sjónarmið hafa líka heyrst. Mér finnst það fullkominn óþarfi og í reynd verið að stefna þá manneskju inn í mál sem skiptir hana ekki máli. Mætti jafnvel líta þannig á að það geti bara verið þungbær reynsla að vera allt í einu dreginn inn í eitthvert dómsmál og einhverja málsmeðferð sem maður á ekki hlut að.

Eftir að hafa hlustað á gesti og sérfræðinga sem komu fyrir nefndina við vinnslu málsins finnst mér mun meira gott í þessu máli en slæmt og raunar finnst mér að þeim gluggum hafi verið lokað þar sem hætta var fyrir hendi.

Ég vil ljúka máli mínu á því að segja að staða Íslands hvað varðar jafnrétti kynjanna er ekki tilviljun ein. Við erum í efsta sæti á lista World Economic Forum og höfum verið það í áratug, eigum að vera stolt af því, en tíminn leiddi okkur ekki hingað heldur markvissar aðgerðir, markviss jafnréttisbarátta og markviss löggjöf á borð við þessa, löggjöf á borð við jafnlaunavottun, kynjakvóta í stjórnum og fæðingarorlofið okkar. Það er grundvallarlöggjöf í þessu samhengi. Það er einlæg von mín að við séum ekki samhliða því að afgreiða svona mál, sem lögð hefur verið allnokkur vinna í, að ætla að hlaupa mörg, mörg skref til baka með því að gefa eftir í löggjöf um fæðingarorlof, þ.e. ætla að fara að gefa afslátt á því að við séum með sjálfstæðan rétt foreldra til töku fæðingarorlofs. Það er áhugavert að heyra og skynja, enda þótt löggjöfin sé ekki eldri en 20 ára, það er ekki lengra síðan að feður fengu í fyrsta sinn raunverulega viðurkenningu á hlutverki sínu sem uppalendur með því að fá þriggja mánaða sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs, samtal um það að þess sé ekki lengur þörf. Mér finnst svo augljóst hver er afleiðingin af því. Ef við förum í einhverja þá leikfimi að ætla að færa mæðrum fjóra mánuði, feðrum fjóra og fjóra til skiptanna, verður niðurstaðan í yfirgnæfandi fjölda tilvika sú að mæður munu taka stærstan hlutann vegna þess að við lifum enn í samfélagi þar sem er mjög sterk kynjapólitík. Það mun reynast feðrum erfiðara að sækja þann rétt að fá að taka fæðingarorlof. Það mun reynast mæðrum erfiðara að sækja fram á vinnumarkaði við þær aðstæður. Mér þætti sorglegt að vera að afgreiða það mál með þessum hætti, þar sem mikil vinna er lögð í það að verja góða stöðu Íslands í jafnréttismálum, og jafnvel að sækja fram, og vera svo samhliða hér á síðustu dögum þings mögulega að horfa upp á mjög alvarlegt bakslag í jafnréttismálum, fari málið um fæðingarorlofið á þann veg sem mér sýnist a.m.k. veruleg hætta á, að við séum aftur að fara að gefa í um kynbundinn launamun, aftur að hólfa kynin af í hlutverkum sínum í samfélaginu.

Það eru mín varnaðarorð í lok umfjöllunar um þetta mál að það er til lítils unnið að afgreiða það með þessum hætti ef við getum ekki staðið í lappirnar og varið rétt kynjanna í grundvallarlöggjöf um jafnréttismál sem fæðingar- og foreldraorlofið er.