virðisaukaskattur og fjársýsluskattur.
Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og lögum um fjársýsluskatt, fjármálaþjónustu.
Ég ætla bara að hlaupa yfir nefndarálitið sem stendur fyrir sínu og benda á að nefndin leggur til ákveðnar breytingar á undanþáguákvæði 1. gr., ekki síst þar sem fallist er á ábendingar KPMG er varða rafræna útgáfu rafeyris, að hann skuli falla þar undir. Síðan eru fleiri breytingar gerðar sem eru fyrst og síðast tæknilegs eðlis.
Einnig voru lagðar til ákveðnar breytingar á 7. gr. frumvarpsins, sem er ívilnun vegna leigusamninga, eftir ábendingar frá Deloitte og Samtökum verslunar og þjónustu er varða heimild til að endurgreiða leigusala þann virðisaukaskatt sem þegar hefur verið skilað í ríkissjóð, enda er ekki kveðið á um hvort heimilt sé að semja afturvirkt um þessi atriði. Þetta á við þegar leiga hefur ekki verið sannarlega greidd. Með þeim breytingum sem eru gerðar í 7. gr. frumvarpsins er verið að koma til móts við annars vegar leigutaka og hins vegar leigusala og auðvelda þeim að semja um greiðslufresti og jafnvel niðurfellingu leigu þannig að ekki komi til greiðslu virðisaukaskatts eða hægt sé að fresta virðisaukaskatti. Samkvæmt gildandi lögum á að greiða virðisaukaskatt um leið og þjónusta er afhent og þegar um leigu er að ræða telst hún afhent meðan menn eru í viðkomandi húsnæði.
Fyrir marga er stærsta atriðið í þessu fyrirliggjandi frumvarpi kannski framlenging á ákvæðinu Allir vinna, þ.e. 100% endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu iðnaðarmanna á byggingarstað.
Auk þess er vert að vekja athygli á því að nefndin leggur til nýtt ákvæði í frumvarpið er varðar virðisaukaskatt af viðburðum í streymi en það er bráðabirgðaákvæði. Vegna samkomutakmarkana stjórnvalda til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar hefur færst mjög í aukana að listviðburðir fari fram án áhorfenda á staðnum en sé þess í stað streymt beint og aðgangur að þeim seldur um streymisveitur, ýmist í línulegri eða ólínulegri dagskrá. Til að gera langa sögu stutta leggur nefndin til bráðabirgðaákvæði, sem gildi frá og með 1. nóvember, að virðisaukaskattur leggist ekki á viðburði, listviðburði, tónleika, listsýningar o.s.frv., sem selt er inn á í streymi. Hygg ég að þetta ætti að auðvelda mörgum listamönnunum núna lífið og ekki síst okkur líka sem fáum að njóta.
Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en vísa að öðru leyti í nefndarálitið og þær breytingartillögur sem fylgja með því.
Undir nefndarálitið skrifa hv. þm, sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Jón Steindór Valdimarsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Smári McCarthy, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Willum Þór Þórsson.