151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur .

374. mál
[12:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að forsenda þess að hækka fjármagnstekjuskattinn úr 20 í 22% árið 2017, og kom til framkvæmda 2018, var sú að reynt yrði að finna eitthvert fyrirkomulag á því að við værum að skattleggja raunverulegar tekjur en ekki verðbólguna sem slíka. Skatturinn er því í eðli sínu mjög ósanngjarn. Mér skilst að ekki hafi verið mjög einfalt að gera þetta. Ég kann ekki skýringuna á því af hverju það hefur dregist en niðurstaðan er sú, og það verður náttúrlega ekki fullkomið, að hækka bara frítekjumarkið. Það nær þá til venjulegs launafólks, nær til almennings sem stritar í sveita síns andlits og á kannski einhvern smáafgang eftir mikla vinnu. Svo kemur ríkisvaldið og skattleggur sparnaðarreikninginn, raunverulega enga raunávöxtun heldur skattleggur bara verðbólguna. Þetta er til að koma til móts við það. Ég held að það sé almennur skilningur á því, enda er mikill meiri hluti allra nefndarmanna á þessu áliti, að það sé mikilvægt að við séum aðeins að skattleggja raunverulegar tekjur.

Ég get hins vegar ekki svarað spurningunni beint og kann ekki skýringuna á því af hverju þetta hefur tekið þrjú ár. Mér skilst að þessi nefnd hafi nú unnið gott verk og hún hefur komist að þeirri niðurstöðu að fara þessa leið. Við tökum að vísu út 2. og 5. gr. vegna þess að aðeins frekari skoðun þarf á því. En mikilvægast er að við erum að hætta að skattleggja verðbólguna og við erum að tryggja að fólk sem hefur keypt frístundahús og á það borgi ekki tekjuskatt af því og (Forseti hringir.) það hafi ekki þau áhrif að fólk missi réttindi úr almannatryggingum.