151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[15:21]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er á ferðinni mjög mikilvægt mál og það hefur tekið framförum í meðferð hv. velferðarnefndar þar sem búið er að taka verktaka líka inn í málið. Í stað þess að skilja þá eftir og láta þá vera einhvers staðar í menntamálaráðuneytinu í styrkveitingum er þetta tekið saman inn í málið. En eins og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson sagði hér rétt á undan þá urðu, að því ég tel, mistök í nefndinni sem ég legg til breytingar á þannig að launatengdu gjöldin fái að vera með í þessu máli eins og í öðrum sambærilegum málum eins og t.d. uppsagnarstyrknum. Þar eru launatengdu gjöldin með og þau ættu að vera það hér líka. Búið er að óska eftir því að málið fari til nefndar milli 2. og 3. umr. og þá er það bara fínt. En ég hvet stjórnarliða til að sýna smá hugrekki og styðja tillögu sem kemur frá minni hlutanum, að prófa það. Það er stundum ágætt af því að við erum ekkert svo vitlaus.