151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

jöfn staða og jafn réttur kynjanna.

14. mál
[15:51]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þingflokkur Viðreisnar styður þetta mál. Ég lít svo á að þetta mál sé nokkuð vel unnið og að vel hafi til tekist. Mig langaði að nefna að árangur Íslands í jafnréttismálum er ekki tilviljun ein. Það var ekki tíminn sem leiddi okkur hingað og það var heldur ekki biðin sem gerði það. Það voru aðgerðir og það var lagasetning. Ég nefni þetta vegna þess að mér þætti holur hljómur í því að afgreiða hér í dag þessa lagasetningu ef við höfum ekki burði til þess að stand svo í lappirnar hvað varðar hið raunverulega og efnislega og stóra jafnréttismál sem hér er til meðferðar á lokadögum þingsins sem lýtur að fæðingarorlofi foreldra. Þar er það grundvallaratriði að foreldrar hafi sjálfstæðan rétt til töku orlofsins til að verja rétt feðra til samveru með börnum sínum, og stöðu kvenna á atvinnumarkaði. Þessi tvö mál verða að ganga hönd í hönd eigi jafnrétti raunverulega að vera markmiðið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)