151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

atvinnuleysistryggingar.

300. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá minni hluta velferðarnefndar.

Minni hlutinn telur að með þeim breytingum sem gerðar voru á hlutabótaleiðinni í vor hafi verið dregið verulega úr skilvirkni úrræðisins. Skilyrði fyrir nýtingu hlutabótaleiðarinnar voru þrengd og kveðið á um að lágmarksstarfshlutfall til nýtingar á úrræðinu yrði hækkað úr 25% í 50%. Þar sem skilyrði fyrir nýtingu úrræðisins er að starfshlutfall hafi lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og að hið nýja starfshlutfall sé að lágmarki 50% nær úrræðið eingöngu til þeirra sem voru í að lágmarki 70% starfi áður en til skerðingar á starfshlutfalli kom.

Minni hlutinn tekur undir með efnahags- og viðskiptanefnd sem áréttaði í nefndaráliti við 212. mál, um tekjufallsstyrki, sem skilað var og afgreitt hér í þingsal bara í síðustu viku eða jafnvel í þessari viku, að nauðsynlegt væri að framlengja úrræðið fram á vor og að hugað verði að því að færa úrræðið aftur til fyrra horfs með tilliti til lágmarksstarfshlutfalls. Leggur minni hlutinn því til að lágmarksstarfshlutfallið verði lækkað niður í 30%, þannig að úrræðið taki til þeirra sem voru í 50% eða hærra starfshlutfalli áður en til hins minnkaða starfshlutfalls kom. Þannig gæti úrræðið náð til fleiri launamanna sem sinna hlutastörfum auk þess sem vinnuveitendum yrði veitt ríkari aðstoð við að viðhalda ráðningarsamböndum. En það er lykilatriði, herra forseti, í þessum málum að viðhalda ráðningarsamböndum. Það er það sem við eigum að berjast fyrst og fremst fyrir hér í þingsal.

Að auki leggur minni hlutinn til að tímabil sem atvinnuleysisbætur eru greiddar verði lengt um sex mánuði. Á næstu vikum og mánuðum missa mörg hundruð manns rétt sinn til atvinnuleysisbóta og geta einungis leitað til sveitarfélaga eftir stuðningi sem er oft helmingi lægri en grunnatvinnuleysisbætur. Sveitarfélögin eru nú þegar illa stödd vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins og því blasir við að þau geti ekki að auki tekið á sig stóraukinn fjölda fólks sem einungis reiðir sig á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Ef ekkert verður að gert fjölgar fólki á Íslandi sem býr við sárafátækt. Þar sem í frumvarpinu er lögð til framlenging á hlutabótaleiðinni til 31. maí 2021, eða um sex mánuði, telur minni hlutinn eðlilegt að samhliða framangreindri breytingu verði fallið frá ákvæði 3. málsliðar 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögum um atvinnuleysistryggingar um að greiðslur atvinnuleysisbóta samkvæmt hlutabótaleiðinni skerði ekki áunnin réttindi til greiðslu atvinnuleysisbóta. Er þetta lagt til, einmitt til að koma til móts við þá gagnrýni með framlengingu og útvíkkun hlutabótaleiðar að ekki sé ráðlegt að skapa hér á landi tvöfalt kerfi atvinnuleysistrygginga þar sem þeir sem eru á atvinnuleysisbótum ganga á tímabil réttinda en ekki þeir sem njóta hlutabóta.

Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hafa verið tilgreindar og eru nánar útlistaðar í þessu nefndaráliti. Undir þetta nefndarálit ritar sú sem hér stendur.