151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér upp í andsvar við hv. þm. Sigurð Pál Jónsson fyrst og fremst vegna þeirrar breytingartillögu sem hann og félagi hans, Ólafur Ísleifsson, nefndarmenn í hv. atvinnuveganefnd, leggja til. Ég ætla samt að byrja á því að segja að mér finnst í greinargerðinni ágætlega tekin saman lýsing á því hvernig staðið er á bak við landbúnað í Evrópusambandinu og til hvaða aðgerða er gripið þar. Það er alveg ágætt fyrir okkur að bera það saman við það sem við höfum verið að gera hér á landi, ég skal nú bara vera algerlega ærlegur með það svo að ég grípi nú orð sem á vel við í þessari umræðu.

Ég rakti í framsöguræðu minni að við hefðum skoðað 112. gr. vegna þess að á það var bent í umsögnum um málið. Við lágum yfir því og leituðum okkur ráðgjafar í þeim efnum. Ég sagði líka frá því að eðli tollasamningsins sem um ræðir væri með þeim hætti að hann væri sjálfstæður samningur, byggður á 19. gr. EES-samningsins, og þannig ætti 112. gr. í sjálfu sér ekki við eins og ég skildi hana. Nú hef ég allan fyrirvara á því enda ekki löglærður maður, ég er bara búfræðingur.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því, þar sem tillagan gengur í raun og veru út á það að leggja til samningsbrot, að við séum að ógna öðrum og stærri viðskiptahagsmunum Íslands vegna slíkrar breytingartillögu og vegna þess að við höfum óskað eftir viðræðum um endurskoðun tollasamnings og við byrjum síðan á því að brjóta hann sjálf?